151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[19:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að leyfa mér að viðurkenna að fannst dálítið sætt að heyra hv. þingmann kvarta yfir því að tillagan væri fyrst að koma fram núna, nánast sorgmæddri röddu, en fylgja því síðan eftir með klassískri ræðu Sjálfstæðismanna um að rétti tíminn fyrir framtíðarmúsík og framtíðarsýn sé aldrei. Í tillögunni er rakið að hluti þeirrar ástæðu að málið er fram komið núna sé einmitt heimsfaraldurinn sjálfur því að sú staða sem við erum í, t.d. varðandi efnahagsmálin okkar, kalli á að við nýtum öll tækifæri til að sækja fram á veginn. Ég er þeirrar skoðunar og lít þannig á að heimsfaraldurinn hafi sýnt okkur fram á að ein af dýrmætustu lexíunum, hvort sem er á landsvísu eða heimsvísu, sé að saman séum við sterkari. Frasinn hér innan lands hefur verið að við séum öll saman í þessu og að árangurinn hafi byggst á samstöðu. Á hverju hefur árangurinn hér heima hvað varðar bólusetningar byggst? Samfloti við Evrópusambandið. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann að því, í tengslum við orðræðu hans um að rétti tíminn sé ekki núna og raunar aldrei: Er hann þeirrar skoðunar að við værum betur sett með bólusetningu landsmanna ef við hefðum verið þar ein okkar liðs en ekki í samfloti með Evrópu?