151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Veiran sér alltaf við okkur og sendir okkur fingurinn. Við þurfum að þétta raðirnar. Í gegnum þennan faraldur höfum við fylgt eftir ráðleggingum sóttvarnayfirvalda með eftirtektarverðum árangri og því er mikilvægt að sóttvarnalæknir hafi lagastoðir fyrir þeim aðgerðum sem hann telur mikilvægar til að tryggja líf og heilsu okkar. Það er okkar löggjafans að tryggja þessa lagastoð svo lengi sem við gætum meðalhófs. Það skiptir máli að fólk hér geti notið góðs af þeim góða árangri sem hefur náðst í sóttvörnum innan lands. Þegar við setjum lög eða endurskoðum lög er það byggt á ígrundaðri vinnu. Mat á áhrifum er mikilvægt í þeirri vinnu. Í kapphlaupi við veiruna verðum við að hlaupa samhliða henni og nýta okkur þá möguleika sem við höfum. Heimildin verður að vera til staðar því að við höfum svo skamman tíma til að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp. Frelsið er yndislegt og eitthvað hefur verið talað um mannréttindi í sóttvarnaaðgerðum. Vissulega verðum við að hafa þau að leiðarljósi við allar aðgerðir en við erum einmitt að verja mannréttindi með því að herða aðgerðir á landamærum. Hægt væri að draga úr sóttvörnum og samkomutakmörkunum innan lands og sérstaklega í réttum takti við bólusetningar líkt og nágrannar okkar í Grænlandi eru að gera. Í gegnum þennan faraldur höfum við fylgt eftir ráðleggingum sóttvarnayfirvalda með eftirtektarverðum árangri og því er mikilvægt að þetta verði gert. Þessi hógværð okkar, að grípa til sóttvarna á landamærum, er of dýr fyrir samfélagið. Því hef ég verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að skjóta lagastoð undir reglugerð um sóttvarnahúsin og skylda þá sem koma hingað til lands til að vera í sóttkví. Við þurfum að bregðast fljótt við. Við þurfum að hafa þessar lagastoðir tilbúnar. Því er einboðið að við verðum að vera samhliða ef ekki á undan þessari skelfilegu veiru. Við höfum ekki verið það hingað til.