151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Síðasta PISA-könnun sýndi fram á að þriðjungur 15 ára drengja nær ekki grunnhæfni í lesskilningi. Hlutfallið er lægra hjá stúlkum, 18,7%, en er þó langt frá því að teljast gott. Það er mikilvægt að taka á lestrarvanda nemenda á grunnskólastigi og þá sérstaklega hjá drengjum. Eflaust má rekja lestrarvanda íslenskra barna að hluta til til breyttra aðstæðna, tækninýjunga og aukins aðgengis barna að hljóð- og myndefni frá unga aldri, oftast á erlendu tungumáli. Þetta á þó ekki að koma í veg fyrir að við getum náð sambærilegum árangri og nágrannaþjóðirnar þegar kemur að lestrarhæfni. Hver er ávinningurinn? Hjá þeim sem lenda í einelti í skóla og ná ekki lesskilningi eða lestrarfærni eða geta lesið sér til gagns sjáum við afleiðingarnar, því miður. Afleiðingarnar eru brotin sjálfsmynd. Skólasálfræðingar og talmeinafræðingar og biðlistar. Staðan í dag í ADHD-greiningu og öðru er sú að þeir sem hafa fjármuni komast fram fyrir listann. 600 börn á biðlista hjá talmeinafræðingum, hundruð barna á bið eftir að komast á biðlista vegna greiningar. Afleiðingarnar í framtíðinni eru þær að þessir einstaklingar, brotnir einstaklingar, lenda á kerfinu, verða öryrkjar, verða háðir áfengi, vímuefnum. Við þurfum ekki annað en að átta okkur á því hversu margir einstaklingar, drengir sérstaklega, eru í fangelsum til að sjá hvaða afleiðingar það hefur að flosna upp úr skólakerfinu og hefur haft. Þess vegna eigum við að einbeita okkur að því að taka á þessum vanda vegna þess að ávinningur þessara einstaklinga er gífurlega mikill en líka þjóðfélagsins í heild sinni.