151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

áhrif hagsmunahópa.

[13:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hefði ég verið blaðamaður hefði ég beðið seðlabankastjóra um dæmi. Ég verð nú að viðurkenna að ég hefði kosið að hann færi yfir það hvað hann ætti nákvæmlega við með þessu. Ég vil segja að í okkar samfélagi togast á mjög ólíkir hagsmunir og hagsmunaverðir reyna að hafa áhrif á ýmislegt sem gert er. Við þekkjum það héðan úr störfum löggjafans, hagsmunaverðir senda inn umsagnir, mæta á fundi þingnefnda, mæta á fundi ráðamanna. Ég hef einmitt beitt mér fyrir því sem forsætisráðherra að draga öll þessi samskipti upp á yfirborðið hvað varðar framkvæmdarvaldið með nýsamþykktum lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum þar sem hagsmunavörðum er gert skylt að skrá sig og Stjórnarráðinu er gert skylt að skrá þau samskipti.

Ég vil segja það líka sem formaður stjórnmálaflokks að ég tel ekki að minn flokkur, sem er auðvitað hluti löggjafans, stjórnist af hagsmunaöflum og ég vona svo sannarlega að sá þingmaður sem hér spyr upplifi það ekki þannig. Fyrir því gæti ég nefnt fjöldamörg dæmi. Ég las í morgun gagnrýni hagsmunavarða á jarðafrumvarp það sem samþykkt var með atkvæðum meiri hlutans á síðasta þingi, mig minnir að minni hlutinn hafi ekki stutt það mál, sem snýst einmitt um að koma í veg fyrir samþjöppun þeirrar auðlindar sem land er á of fáar hendur. Þetta hefur verið gagnrýnt af hagsmunaaðilum en Alþingi lét það ekki stjórna sínum gjörðum þá. Ég tek eftir umsögnum hagsmunavarðanna um auðlindaákvæðið sem liggur fyrir þinginu þar sem allir helstu talsmenn atvinnulífsins leggjast gegn því ákvæði. Þar mun auðvitað reyna á afstöðu þingsins. Þannig að já, hagsmunaaðilar reyna tvímælalaust að hafa áhrif á ákvarðanir löggjafar- og framkvæmdarvalds. En það er hins vegar mikilvægt að við séum með þau samskipti uppi á borðum og um þau ríki gagnsæi og þar hefur sú sem hér stendur svo sannarlega beitt sér.