151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

árásir Samherja á fjölmiðlafólk.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði um málflutning stórfyrirtækja í fyrri spurningu en spyr núna um eignarhald auðmanna á fjölmiðlum. Það er algerlega nýtt viðfangsefni sem væri kannski betra að ræða við hæstv. menntamálaráðherra, þ.e. hver eigi að eiga fjölmiðla. Einhvern tímann fyrir allmörgum árum var hér rætt um dreift eignarhald á fjölmiðlum og það fór eins og það fór. Þannig að ég held að það sé töluvert flókin spurning sem hv. þingmaður kemur hér með, sem er spurningin: Hver má eiga fjölmiðil? Ég held hins vegar að með því að auka stuðning hins opinbera við fjölmiðla, eins og þessi ríkisstjórn er að leggja til, reyndar sú fyrsta sem það gerir, gerum við fjölmiðlum betur kleift að rækja hlutverk sitt í lýðræðissamfélagi. Sömuleiðis gerum við því fólki kleift að reka fjölmiðla sem ekki er eingöngu auðmenn, eins og hv. þingmaður vitnar hér til, þ.e. við styðjum rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla. Það er hluti af stjórnarsáttmála, (Forseti hringir.) fyrir því hef ég talað og það hefur verið á stefnu minnar hreyfingar lengi. En ég held að mjög erfitt sé að setja fram sjónarmið um það hverjir megi eiga fjölmiðla.