151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

[13:55]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma hér í sérstaka umræðu um breytingar á fyrirkomulagi skimana fyrir legháls- og brjóstakrabbameini. Töluverð gagnrýni hefur komið fram á breytingarnar, undirbúninginn og innleiðingu á nýju fyrirkomulagi. Ég styð tilfærsluna á þjónustunni til heilsugæslunnar. Það er góð breyting. En að mínu áliti hafa allt of margir hnökrar komið upp varðandi framkvæmd og upplýsingagjöf og það varð ákveðið rof eða töf á þjónustunni um tíma. Ekki sér fyrir endann á þessu breytingaferli og það hefur dálítið verið þannig að þegar einn vandi leysist birtist annar. Sérstakir hópar hafa verið stofnaðir á samfélagsmiðlum til að ræða þessi mál og umræðan hefur ítrekað ratað hér inn í þingsal en í dag fáum við gott tækifæri til að dýpka umræðuna.

Markmiðið sem ég legg af stað með inn í þessa umræðu er að átta mig á breytingastjórnuninni í þessu verkefni og beina sjónum að því hvernig markvissri breytingastjórnun verður háttað héðan í frá, yfirsýn og samhæfing þjónustunnar tryggð til framtíðar og hvaða leiðir er rétt að fara til að skapa traust á fyrirkomulaginu. Að mínu áliti er brýnasta verkefnið nú að taka utan um þann hóp einstaklinga sem hefur þurft að bíða allt of lengi eftir niðurstöðum og frekari greiningum og þjónustu vegna rofsins sem varð. Það þarf að viðurkenna og virða þá stöðu sem þær konur eru í. Þar eru dæmi um konur sem eru búnir að bíða í sex mánuði eða hálft ár eftir upplýsingum um hvort þær þurfi frekari rannsóknir og þá tekur jafnvel við fjögurra vikna bið eftir næsta læknatíma. Hæstv. ráðherra verður að mínu áliti að finna leið til að taka utan um þennan hóp. Ég veit ekki hvað þessi hópur er stór en þetta eru konur í viðkvæmri stöðu sem þarf að sinna af virðingu samhliða því sem unnið er með ferlið í heild, það skýrt og traust byggt upp eins og hefur verið gert síðustu mánuði.

Ég hef líka ákveðnar áhyggjur af of mörgum milliliðum í meðhöndlun sýna í því fyrirkomulagi sem nú er með rannsóknirnar. Skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini varðar allar konur landsins — já og eiginmenn, feður, bræður og syni. Skimunin hefur snertifleti við öll heimili landsins og þar með mikil áhrif á traust til heilbrigðisþjónustunnar í heild.

Í febrúar 2020 ræddum við fyrirhugaðar breytingar hér að frumkvæði hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur. Þar kom skýrt fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að þessi þjónusta þarf að vera áreiðanleg og byggja á bestu þekkingu á hverjum tíma og einnig er mikilvægt að hún sé aðgengileg um land allt í samfellu. Til að átta mig betur á stöðunni og leiðinni fram á við langar mig því að beina eftirfarandi spurningum til ráðherra: Hvenær var ákvörðun um breytingar á fyrirkomulagi skimana tekin og hverjir komu að þeirri ákvörðun? Hvernig var ábyrgð á yfirsýn og breytingastjórnun skilgreind til að tryggja samfellu og upplýsingagjöf um breytingar? Hvernig er ætlunin að tryggja markvissa breytingastjórnun og yfirsýn héðan í frá? Undir þeim lið er náttúrlega mjög margt sem er vert að skoða, t.d. hvernig staðið verður að faglegri ákvarðanatöku um fyrirkomulag skimana til framtíðar og hvernig hugsanlegar breytingar á tíðni- og aldursviðmiðum skimana verða kynntar, samanber þær breytingar sem fallið var frá í janúar. Hver fær það hlutverk að fylgja eftir þátttöku einstakra kvenna í skimunum eftir breytingarnar og hver fær það hlutverk að standa fyrir almennri hvatningu til kvenna? Hverjum er ætlað að tryggja eftirfylgni og aðgengi að tíðari skimunum vegna aukinnar áhættu, svo sem sögu um frumubreytingar, HPV-greiningar, keiluskurðar eða í kjölfar greiningar á erfðaþáttum eins og BRCA? Hvert eiga konur sem þurfa á frekari rannsóknum vegna niðurstöðu úr skimunum að snúa sér og er þeim tryggð greið leið til sérfræðinga? Er svartími núna orðinn ásættanlegur? Að lokum: Skapar það að sýnin séu greind í Danmörku einhverjar nýjar áskoranir varðandi öryggi við meðferð sýna, persónuvernd og geymslu lífsýna?