151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

covid-19, staðan og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þær spurningar sem hv. þingmaður snertir á eru allar í umræðunni með einum eða öðrum hætti og við í heilbrigðisráðuneytinu fylgjumst náttúrlega vel með hvernig því öllu saman vindur fram. Þessar spurningar hafa að hluta til verið ræddar í vinnuhópnum um kaup á bóluefni, að því er varðar nýjar bylgjur, ný afbrigði, þriðju sprautuna og börnin, allt það sem hefur verið í umræðunni. Evrópusambandið er að velta fyrir sér kaupum af framleiðendum inn í framtíðina og þegar málin taka að skýrast þurfum við líka að taka afstöðu til þess hvernig við komum að slíku samstarfi. Auðvitað eru rannsóknir sem standa yfir hjá lyfjaframleiðendum varðandi þessa þætti á misstórum skala, bæði að því er varðar börnin og þriðju sprautuna. Við verðum eiginlega að leggja allt okkar traust á okkar besta fólk í þeim efnum því að þekkingin verður til eftir því sem tímanum vindur fram. Við fáum líka ný efni samkvæmt Evrópusamningnum og sum þeirra — t.d. kemur eitthvað af CureVac, minnir mig, í lok annars ársfjórðungs og mögulega eitthvað á þriðja ársfjórðungi. Fleiri tegundir hafa verið inni eins og Novavax. Allt þetta hjálpar okkur til að vera með breiðari „front“. Við sjáum hvað það er mikill styrkur í því nú þegar að vera með bóluefni frá fleiri en einum og fleiri en tveimur bóluefnaframleiðendum. Ef bíða þarf með eitt efni af einhverjum ástæðum er hægt að halda áfram o.s.frv., auk þess sem þekkingunni vindur fram. Við sjáum að eitt efni hentar betur eldra fólki meðan annað hentar frekar yngra fólki. Við fylgjumst því með og erum við borðið hér eftir sem hingað til.