151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

covid-19, staðan og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta eru merkilegar umræður. Ég skil eiginlega ekki hvernig hæstv. ráðherra eða sumir stjórnarþingmenn geta sagt suma hluti hérna alveg kinnroðalaust. Að sýna á spilin, segir hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson. Við erum búnir að biðja um það í heilt ár að það sé sýnt á spilin, alveg frá því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var seinkað, beðið um frest, þar sem stefna stjórnvalda um það hvernig á að komast út úr Covid kemur einmitt fram. Þegar hún kom síðan loksins fram hálfu ári seinna voru engar upplýsingar, ekki neitt. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir segir að við höfum verið send í langhlaup fyrir ári síðan. Vonin var þá um stuttan faraldur. Það var aldrei gert ráð fyrir löngum faraldri. Það var engin sviðsmynd um langan faraldur. Við erum að sjá þetta ítrekað hjá öllum ráðuneytum, líka hjá ráðuneyti hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem toga þarf út upplýsingar með töngum og þegar það tekst þá eru þær ekki fullnægjandi. Það er talað hérna um trúnaðinn á samningunum, sem átti nú ekki að vera hægt að birta af því að þar voru einhverjar verðupplýsingar. Hversu auðvelt er að birta þá án verðupplýsinga og fá alla vega upplýsingar um fjölda skammta sem eru að fara að koma á næstunni? Við fáum upplýsingar bara í síðustu viku um að það eigi að aflétta öllum takmörkunum 1. júlí, af því að þá verði búið að bólusetja alla 16 ára og eldri a.m.k. einu sinni. Af hverju erum við að fá þær upplýsingar fyrst í apríl? Af hverju var það ekki ljóst fyrir áramót þegar var verið að klára samninga við bóluefnaframleiðendur? Ég skil ekki af hverju það er svona erfitt að sýna einmitt á spilin. Núna rúmlega ári seinna þá vitum við ekki enn þá af hverju það á að aflétta öllum takmörkunum þegar við verðum búin að bólusetja alla 16 ára og eldri. (Forseti hringir.) Af hverju ekki 50 ára eins og var talað um í opnunaráætlun í Danmörku, eða 40 ára eða 30 ára? Af hverju 16 ára?