151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

covid-19, staðan og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[16:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er margt sem þarf að athuga og skoða í þessum faraldri og ekki síst það sem hv. þingmaður veltir hér sérstaklega upp sem er álag á heilbrigðiskerfið okkar og álag á heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Það hefur margt hvert unnið myrkranna á milli, snúið bökum saman, neitað sér um sumarleyfi sumarið 2020, sem ég held að ótrúlega mörg hafi gert, og sum þeirra eru að vinna á fleiri en einum og fleiri en tveimur stöðum. Þessu þarf að halda mjög vel til haga. En að sama skapi hafa stofnanir og starfsfólk heilbrigðiskerfisins fengið gríðarlegt þakklæti og gríðarlega mikið og verðskuldað klapp á bakið sem við eigum öll að passa upp á að halda til haga. Ég nefndi áðan heilsugæsluna, sem heldur utan um sýnatökur og bólusetningar, en ég nefni líka Landspítala með sína góðu göngudeild og allar heilbrigðisstofnanir landsins sem hafa verið að gera þetta afar vel. Við þurfum að halda því til haga en líka því hvernig líðanin er þegar faraldurinn er að baki.