151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

626. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér nefndarálit utanríkismálanefndar er varðar tillögur Vestnorræna ráðsins frá ársfundi þeirra árið 2020. Ég ætla að leyfa mér að lesa sjálft álitið því að það er mjög stutt. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar, og Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020. Þær eru um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna, um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að skort hafi innbyrðis samráð milli vestnorrænna samstarfsráðherra um ályktanir Vestnorræna ráðsins og framfylgd þeirra. Því er kallað eftir því í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2020 að samstarfsráðherrar Norðurlanda á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum geri með sér samstarfssamning sem kveði á um árlegan samráðsfund.

Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2020 er kallað eftir formlegu vestnorrænu samstarfi um norðurslóðamál. Mælst er til þess að ráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja sem sinna norðurslóðamálum fundi árlega um framgang vestnorrænna hagsmuna á norðurslóðum og gefi Vestnorræna ráðinu sameiginlega skýrslu um stefnu vestnorrænu ríkisstjórnanna í norðurslóðamálum og gagnvart Norðurskautsráði.

Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2020 eru ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hvattar til að styðja við mögulega aukaaðild Grænlendinga og Færeyinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Lönd sem ekki hafa fullt sjálfstæði og stjórn á utanríkismálum geta fengið aukaaðild að stofnuninni, en umsóknin þarf að berast frá ríkinu sem löndin tilheyra. Við meðferð málsins kom fram að af yfirlýsingum utanríkisráðherra Danmerkur árið 2020 megi ráða að dönsk stjórnvöld styðji yfirlýstan vilja Færeyinga að fá aukaaðild að stofnuninni. Nefndin ítrekar að í ályktuninni felist stuðningur þingsins við ákvarðanir landsstjórna Færeyja og Grænlands en ekki tilraun til að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda eða taka fram fyrir hendur danskra stjórnvalda í þessum efnum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Logi Einarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Olga Margrét Cilia, áheyrnarfulltrúi Pírata, lýsti yfir stuðningi við þetta álit.

Undir álitið skrifa formaður utanríkismálanefndar, Sigríður Á. Andersen, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Virðulegur forseti. Lengra er þetta nefndarálit nú ekki, en mig langar að segja að þetta er í fyrsta skipti sem Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins leggur fram eina þingsályktunartillögu með þeim ályktunum sem samþykktar hafa verið á ársfundi. Við þekkjum það í gegnum tíðina að hingað hafa gjarnan borist þingsályktunartillögur um hvert og eitt málefni fyrir sig. Þetta er í raun eina alþjóðastarfið okkar sem hefur þessa beinu tengingu við þingið með því að hingað berast þingsályktunartillögur um ályktanir frá ársfundinum og þær fá afgreiðslu í þingsal. Þetta er eitt af þeim málum sem rædd hafa verið þegar við höfum verið að velta fyrir okkur alþjóðasamstarfinu og formi þess. Mér þykir það hafa verið mikill kostur og styrkt þetta alþjóðasamstarf sem Vestnorræna ráðið er. Ég tel það vera mikilvægt alþjóðasamstarf þótt það sé lítið í þeim skilningi að í því sitja bara þrjú lönd, en þó sex þingmenn frá hverju landi fyrir sig.

Þessi leið hefur líka kallað á það að fyrir hvern og einn ársfund er óskað eftir skýrslu frá viðkomandi ráðuneyti um framkvæmd ályktananna. Þær skýrslur hafa verið lagðar fram á ársfundinum og þá er hægt að lesa sér til um hvernig ályktununum hefur verið framfylgt í hverju landi fyrir sig. Mér hefur oft og tíðum þótt það mjög fróðleg og góð lesning, auk þess sem þá er í því fólgið eftirlit gagnvart framkvæmdarvaldinu, hvernig það framkvæmir þær ályktanir sem hér hafa verið samþykktar. En það hefur verið misbrestur á því, eins og því miður á gjarnan við um þingsályktanir, að þeim er ekki fylgt eftir hjá framkvæmdarvaldinu.

Virðulegur forseti. Með þessum orðum er ég að segja að þetta fyrirkomulag sem verið hefur sé gott. Það er aftur á móti nýlunda hér að ályktanir fundarins séu settar saman í eina þingsályktunartillögu og fer ágætlega á því, að ég tel. Eins og ég sagði áðan við upplestur úr nefndarálitinu var það kannski helst ályktunin um að styðja aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga sem við ræddum töluvert. Bæði var hún rædd í hv. utanríkismálanefnd en líka í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þegar sú tillaga kom fyrst fram, fyrst og fremst vegna þess að okkur fannst mikilvægt að sú umsókn væri drifin áfram af löndunum sjálfum, þ.e. af Færeyingum og Grænlendingum, en kæmi ekki frá Vestnorræna ráðinu þó að allir hafi verið sammála því að sjálfsagt væri að styðja þá aukaaðild. Þetta kemur að sjálfsögðu upp í kjölfar Covid, en þá sáu Færeyingar fyrst og svo Grænlendingar sér hag í því að eiga aukaaðild að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Mig langar líka að segja varðandi norðurslóðamálin að ein ályktun er um að auka þurfi samstarf vestnorrænu ráðherranna sem fara með málefni norðurslóða. Ég held að það færi mjög vel á því. Það er ekki langt síðan það var ályktun frá ársfundi Vestnorræna ráðsins. Það var reyndar á ársfundi sem haldinn var hér í þessum sal þar sem gestir fundarins voru utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands. Í kjölfar þess fundar var haldinn blaðamannafundur og undirritað samkomulag um að auka samstarf utanríkisráðherra þessara ríkja. Það olli svo usla í Danaveldi þegar utanríkisráðherra Dana afgreiddi það með þeim hætti að sá samningur væri í raun ekki gildur í ljósi þess að Færeyingar og Grænlendingar færu ekki með sín utanríkismál. Ég veit að það særði marga félaga okkar í Færeyjum og á Grænlandi og kom af stað ákveðinni umræðu um hvernig þessum málum skyldi háttað. Við vitum auðvitað að sjálfstæðisbarátta þessa ríkja er töluverð og mikil. En þetta er hápólitískt og ekki styðja allir þingmenn þá sjálfstæðisbaráttu eða styðja hana a.m.k. ekki með sama hætti.

En ég held að þegar kemur að norðurslóðamálum fari mjög vel á því að utanríkisráðherrarnir hafi öflug samskipti um þann málaflokk þar sem við eigum mjög mikið sameiginlegt. Þó er það auðvitað þannig að Ísland er aðili að Norðurskautsráðinu og á þar sæti, en Vestnorræna ráðið fékk fyrir nokkrum árum síðan áheyrnaraðild. Konungsveldið Danmörk er líka hluti af Norðurskautsráðinu og það er auðvitað vegna Grænlands. Danir hafa verið duglegir að leyfa Grænlendingum og Færeyingum að taka þátt í þeirri vinnu og hafa horft til vilja þeirra í þeim efnum.

Það er ekki langt síðan það var stefna okkar í Vestnorræna ráðinu að koma fram með einhvers konar vestnorræna áherslu eða stefnuyfirlýsingu í norðurslóðamálum, þ.e. sameiginlega norðurslóðastefnu þessara ríkja. Það hefur ekki verið mikill gangur í þeirri vinnu. Á sú sem hér stendur sæti í þeim starfshóp. Það er kannski hægt að segja að það komi margt til. Auðvitað hafa verið tíðar kosningar og mannaskipti í þessum nefndum, sem er kannski stærsti þátturinn. En svo má líka alveg velta fyrir sér hversu raunhæft það er, af því að þótt þessi smáríki geti sameinast um ýmsa hluti og eigi að gera það þá er það ákveðið hagsmunamál og mat hvers ríkis fyrir sig þegar kemur að þeim gríðarstóra málaflokki sem norðurskautsmálin eru. Svo verður maður að viðurkenna að maður heyri það nú líka aðeins að Grænlendingar, sumir hverjir, telji Færeyinga hafa kannski minna vægi þegar kemur að því að ræða norðurslóðamál því að Færeyingar séu ekki norðurslóðaríki. En alla vega er ljóst að Færeyjar eru mjög nálægt norðurslóðum og hafa mikla hagsmuni af því sem þar gerist eins og við hin.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Eins og ég sagði áðan leggjum við til að þessar ályktanir verði samþykktar. Svo þarf að hvetja til þess að ráðuneytin fylgi þessu eftir og að Vestnorræna ráðið fái reglulega skýrslu þar að lútandi inn á sína ársfundi.