151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Að sjálfsögðu er það þannig að þeir sem fást við fræðimennsku á Íslandi eiga sem allra flestir að blanda sér í rannsóknir og umræðu um málefni norðurslóða. Áherslupunkturinn í tillögunni um að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi er í rauninni bara til að staðfesta að þar er sinnt ákveðnu forystuhlutverki og það er mikilvægt að fylgja því eftir. Auka á samskiptin enn frekar á milli allra háskólanna. Við höfum svo Hringborð norðurslóða þar sem við höfum séð alla háskólana miðla þekkingu sinni og taka þátt í þeirri umræðu þar sem fræðafólk alls staðar að úr heiminum deilir þekkingu sinni. En auðvitað þarf það líka að gerast í alþjóðlega vísindasamstarfinu, í gegnum viðurkennd vísindatímarit og kannski ekki síst í gegnum vísindasamstarfið sem leitt er af norðurslóðaklasanum á Akureyri. Það er mjög mikilvægt fyrir þá sem það leiða að þeir byggi upp góð tengsl við alla þá sem sinna rannsóknum á norðurslóðum. Aukinn áhugi annarra íslenskra háskóla á málefnum norðurslóða er endurspeglun af því sem er að gerast í alþjóðlega vísindaumhverfinu og því virkari sem við erum og á fleiri stöðum, þeim mun mikilvægara er það. En það er mikilvægt að við fylgjum eftir því sem þarna er markað, að klasinn á Akureyri leiði samstarfið og virki alla sem tilbúnir eru í það.