151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í Kastljósinu í gær var heilbrigðisráðherra óánægð með að hún hefði ekki fengið nægan stuðning, sérstaklega meðal stjórnarandstöðunnar, við frumvarp sitt sem var afgreitt hér á einum degi. Við vitum líka, eftir nefndarumfjöllunina um það mál, að frumvarpið var samið á einum degi. Einn dagur í að semja frumvarp, einn dagur í afgreiða frumvarp. Ég held að við getum öll séð að það eru ekki mjög góð vinnubrögð á neinn hátt, sérstaklega í kjölfarið þegar við sjáum að framkvæmdin á þessum fljótafgreiddu lögum er ekki einu sinni tilbúin. Minnisblaðið er ekki tilbúið sem er unnið ofan á lögin. Það hefði verið hægt að vinna það meðfram lögunum því að þegar ríkisstjórnin skilar máli til þingsins þá gerir hún að sjálfsögðu ráð fyrir því að efnislega verði það afgreitt, sérstaklega af því að ekkert hefur bent til þess að þingið hafi verið óliðtækt í að afgreiða Covid-málin. Vandinn er að það er alltaf verið að gera ráð fyrir þessu meirihlutaræði sem er hérna og gefur Alþingi yfirbragð stimpilstofnunar. Við fáum ekki nægan tíma til að yfirfara þau mál sem koma hérna. Meira að segja þau mál sem er viðurkennt að hafi verið búin til á mjög skömmum tíma, ekki á tveimur vikum sem ríkisstjórnin hafði frá því að dómur féll um fyrri reglugerð heldur á einum degi. Einhverra hluta vegna fær Alþingi einn dag til að afgreiða það mál þó að framkvæmdin sé ekki tilbúin í kjölfarið og við þurfum að bíða eftir því að sjá hvernig reglugerð lítur út og minnisblað sóttvarnalæknis lítur út eftir að lögin eru samþykkt. Það seinkar framkvæmd laganna sem við þurftum að afgreiða á einum degi. (Forseti hringir.) Það eru að mínu mati ekki góð vinnubrögð þegar við erum að glíma við svona alvarleg mál eins og sóttvarnaaðgerðir.