151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

stuðningur við fjölskyldur fatlaðra barna í dreifbýli.

740. mál
[13:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Frá því að þessi lög tóku gildi 2018 höfum við í einstaka málum verið í sambandi við einstaka sveitarfélög eða einstaka landshlutasamtök eða byggðarlög sem hafa tekið sig saman um þjónustu við fatlað fólk. Þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu. Það er líka ákveðinn sveigjanleiki í lögunum gagnvart sveitarfélögum til þess að geta sinnt þessu. Það er ekkert útilokað, og það held ég meira að segja að sé of veikt til orða tekið, ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu almennt að við getum haft ákveðinn sveigjanleika þegar svona mál koma upp vegna þess að þau eru ekki mjög mörg og við höfum fengið þau inn á okkar borð.

En það er hins vegar líka þannig að það er ekki ráðuneytisins beint að sinna þessu. Það er skapaður ákveðinn sveigjanleiki fyrir sveitarfélög til að sinna þessu líka og það er ekki ráðuneytisins beint, þó að ráðherra hafi yfirumsjón með málaflokknum sem hefur eftirlit með lögunum, heldur er það sjálfstæð eftirlitsstofnun. Við höfum líka verið að feta ákveðnar línur í því að við erum búin að skilja þarna á milli með ákveðnum hætti; ráðuneytið er stefnumótunaraðilinn, framkvæmdaraðilinn. Í þessu tilfelli er það alveg skýrt að sveitarfélögin sjá um þjónustuna. En síðan erum við með sjálfstæða eftirlitsstofnun og ég veit til þess að komið hafa fjölmörg mál þangað inn, ekki bara sem tengjast fötluðum börnum. En ráðherra og ráðuneytið hefur ekki beina aðkomu að því. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu gagnvart einstaka málum að sveitarfélög geti sýnt meiri sveigjanleika. En það er í sjálfu sér á borði sveitarfélaganna sjálfra, það var það sem ég vildi enda á að segja í þessari umræðu.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og þau orðaskipti sem við höfum átt um þetta mál.