151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

fjármögnun á styttingu vinnuvikunnar.

618. mál
[14:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim sem hér hafa tekið þátt. Ég tek undir það að við þurfum að fara vel yfir þetta. En ég tel samt sem áður að nú sé einstakt tækifæri til þess að minnka álag, minnka áhættu á kulnun og auka samverustundir fjölskyldna í samfélaginu. Þetta er sannarlega áskorun. Hér nefnir ráðherra 4,2 milljarða og að tveir þriðju af þeim kostnaði sé fyrst og fremst innan heilbrigðisþjónustunnar. Þar vitum við líka að álagið hefur verið mikið, launin þar hafa ekki alls staðar verið há og þess vegna hefur það fyrirkomulag, sem ráðherra talar um að við reynum að brjótast út úr, kannski náð að þróast. Það gæti þýtt að við þyrftum að borga betur. Ég tel að við gætum þurft að auka við það fjármagn og mér finnst vera kjörið tækifæri þar sem atvinnuleysi er mjög mikið, að við ráðum inn fólk í þetta mönnunargat, eins og hér var nefnt. Það er væntanlega töluvert af fólki sem hefur ekki verið að vinna vegna margvíslegra ástæðna, m.a. álags og annars slíks, innan þessara erfiðu kerfa okkar, sem eru sérstaklega löggæslan og heilbrigðisþjónustan.

Gott og vel. Við verðum að reyna að nýta svigrúmið innan málaflokksins, ég tek undir það. En ég hef aðeins áhyggjur af því að það sé ekki nógu mikið innan stofnananna eins og við höfum verið að ræða, að reyna að gera betur þar, og svo varasjóðurinn. En einhvern veginn þurfum við að ná utan um þetta til framtíðar. Ef við nýtum fjármagnið innan þessa árs, þess rúmlega hálfa árs sem þetta nær til, þá þurfum við að horfast í augu við að við gætum þurft að gera meira en að hliðra til innan stofnana og innan málaflokksins um leið og við förum yfir hvernig til tekst.