151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

fjármögnun á styttingu vinnuvikunnar.

618. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem segja að þetta sé gríðarlega spennandi verkefni. Þetta er mikið framfaramál og þetta er stórmál fyrir vaktavinnufólk, ekki síst þá sem standa vaktir allan sólarhringinn, en þar getur vinnustundum fækkað niður í 32 stundir á viku. Eftir sem áður höfum við gefið okkur ákveðnar forsendur í þessu máli. Ég hef rakið það hér hvernig við mátum í upphafi heildarumfangið og kostnaðinn við þessa aðgerð og vil rifja það hér upp að í aðdraganda þess að við stigum þetta skref voru keyrð hér tilraunaverkefni þar sem menn þóttust sjá að hægt væri að fækka vinnustundum án þess að það kæmi niður á framleiðni eða að auka þyrfti kostnaðinn stórkostlega. Meðal annars með þá niðurstöðu í höndunum var ákveðið að stíga næsta skref, fyrst hjá dagvinnufólki og síðan í vaktavinnu. Þegar kemur að útfærslu á vaktavinnunni rekum við okkur hins vegar á mikilvægi þess að útfærslan gangi upp í samræmi við gefnar forsendur í upphafi.

Þegar menn nefna hér að á einstökum stofnunum þurfi að ráða kannski 150 manns þá erum við komin dálítið langt frá niðurstöðunni um að hægt væri að viðhalda framleiðni með sama starfsmannafjölda ef útfærslan væri í samræmi við það sem tilraunaverkefnið gaf til kynna. Og ef það er svo að 4,2 milljarðar duga ekki heldur þurfi að bæta mörgum milljörðum þar ofan á þá hefur ríkið í þessu tilraunaverkefni — sem stendur í tvö ár í raun og veru vegna þess að það kemur til endurmats árið 2023 þar sem tekin verður ákvörðun um framhaldið — tekið á sig skuldbindingar sem eru langt umfram það sem að var stefnt. Það hlýtur að þurfa að taka tillit til þess, ekki eingöngu vegna samhengisins við það sem gerist á hinum almenna markaði heldur vegna þess að þá hefur ríkið tekið á sig að bæta kjörin langt umfram rammann sem um var samið. En við skulum vona að það gerist ekki. Við skulum vona að útfærsla stofnananna verði í þeim anda sem að var stefnt, (Forseti hringir.) að okkur takist að auka framleiðni, að útfærslan á hverjum stað verði þannig að við getum haldið (Forseti hringir.) utan um þetta innan einhvers eðlilegs kostnaðarramma, vegna þess að ef það bregst er sjálft verkefnið í heild sinni í ákveðnu uppnámi.