151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Evrópa er ekki paradís og Evrópusambandið er ekki paradís og þar fá ekki allir úrlausn allra sinna mála. En Evrópusambandið og Evrópa eru heldur ekki helvíti á jörð. Evrópusambandið er hins vegar bandalag fullvalda sjálfstæðra ríkja sem þau hafa gert með sér um tiltekna hluti, um tilteknar reglur sem þau hafa komið sér saman um til þess að tryggja ákveðin réttindi og ákveðna jafnstöðu þeirra sem eiga þar í viðskiptum og þeirra sem búa á þessum svæðum.

Nokkuð var um það rætt í fyrri hluta umræðunnar að með fullri aðild að Evrópusambandinu myndi það gerast — það kom til að mynda fram í máli hæstv. utanríkisráðherra og fleiri sem voru á sama máli og hann — að Ísland myndi fyrirgera viðskiptafrelsi sínu, hvorki meira né minna. Það jafngilti því að missa viðskiptafrelsi að eiga fulla aðild að Evrópusambandinu. Eins og bent var á í þeirri umræðu myndu það teljast fréttir í þeim löndum Evrópu sem eiga aðild að þessu bandalagi vegna þess að Evrópusambandið er stærsta viðskiptasamband í heimi. Evrópusambandið hefur gert viðskiptasamninga við nálega öll þau ríki heims sem ekki eru innan vébanda þess. Þó að íslenskir ráðamenn séu úrræðagóðir og klókir og snjallir er óhugsandi að þeim muni takast að gera fyrir hönd Íslands fleiri og betri viðskiptasamninga við þau ríki sem utan Evrópusambandsins standa en Evrópusambandið hefur nú þegar gert og Ísland fengi aðgang að með fullri aðild.

Full aðild að Evrópusambandinu er spennandi kostur og full ástæða er til að skoða þann kost vel og gaumgæfilega og fordómalaust. Af einhverjum ástæðum tókst að útiloka þann möguleika að komast að því fyrir íslenska þjóð hvað það táknaði að gerast fullgildur aðili að þessu sambandi. Jafnan var talað um að það jafngilti því að kíkja í pakkann. „Það er ekkert hægt að kíkja í pakkann,“ var alltaf sagt, rétt eins og full aðild að Evrópusambandinu væri jólagjöf, maður fengi hana bara einu sinni og ætti að bíða eftir að opna þann pakka þar til á aðfangadagskvöld. En þetta er ekki jólagjöf.

Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur, þáverandi Framsóknarflokkur, lofuðu því fyrir kosningar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þessum viðræðum yrði fram haldið eftir að sú stjórn sem staðið hafði fyrir þeim hafði fallið. Eftir kosningar var loforðið afgreitt með frægu orðalagi sem enn má segja að lifi sjálfstæðu lífi sem sérstakt hugtak í íslenskri stjórnmálahugsun og má kannski heita framlag viðkomandi stjórnmálamanns til íslenskrar stjórnmálaheimspeki, þ.e. þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði, þegar hann var inntur eftir því loforði, að það að efna slíkt loforð væri pólitískur ómöguleiki. Það var sem sagt pólitískur ómöguleiki að leyfa þjóðinni sjálfri að ákveða hvort hún vildi vita hvað það táknaði að eiga fulla aðild að þessu sambandi og hvort hún vildi þá sjálf fá að taka ákvörðun um hvort af slíkri aðild yrði eða ekki.

Það er alveg hugsanlegt að út úr samningaviðræðum við Evrópusambandið komi alveg hræðilegur samningur sem þurfi að fella. En það fáum við ekki að vita. Við fáum aldrei að vita það ef þau öfl ráða áfram för við stjórn landsins sem hafa stýrt landinu frá árinu 2013, meira og minna.

EES-samkomulagið, sem komið var á undir forystu jafnaðarmanna á sínum tíma, hefur reynst okkur Íslendingum vel. Ég held að flestallir sem skoða það mál séu á einu máli um að það hafi gefist vel. Það hefur gerbreytt hér lagaumhverfi, það hefur gerbreytt þjónustu við neytendur, það hefur gerbreytt öllu umhverfi hvað varðar umhverfismál, félagsleg réttindi og þar fram eftir götunum. Það hefur í efnahagslegu tilliti verið gæfa Íslendinga að hafa verið aðili að því sambandi. Þó er þetta nokkurs konar aukaaðild að Evrópusambandinu. Við erum í gættinni en sitjum ekki við sjálft borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.

Ísland er stórt land en fólkið sem hér býr, Íslendingar, íslenska þjóðin, er með fámennustu þjóðum á jörðinni. Varla er hægt að tala um að Íslendingar séu smáþjóð, frekar væri hægt að segja að við séum þjóðarkríli. Slíkt þjóðarkríli á allt undir því að alþjóðalög séu virt eins og dæmin sanna. Við getum illa staðið uppi í hárinu á voldugum aðilum eins og dæmin úr þorskastríðunum og öðrum milliríkjadeilum sanna. Þá er mjög mikilvægt að eiga aðild að stóru ríkjabandalagi, vera í öflugu alþjóðasamstarfi og geta haft áhrif á það hvernig löggjöfin er.