151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mín skoðun er sú að það sé alltaf rétti tíminn til að ræða þessi mál. Ég hef aldrei haldið öðru fram, það er alltaf rétti tíminn. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, alla tíð, og ég hef aldrei gefið nein loforð fyrir hönd flokksins. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að kjósa um það hvort hún vilji vera utan eða innan ESB og það er alltaf rétti tíminn til þess, alltaf rétti tíminn til að taka umræðuna. Ég vil gjarnan sjá þessa umræðu yfirvegaða, að dregnir séu saman kostir og gallar. En ég var bara að segja það í ræðu minni hér áðan að eins og staðan blasir við mér núna — kannski getur það breyst þegar umræðan verður dýpri — finnst mér ekki mjög freistandi að fara þangað inn, alls ekki, eiginlega fjarri lagi.

Kannski er Bjartur í Sumarhúsum í mér, kannski er ég bara svona að upplagi, hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson. Ég hef bara svo mikla trú á okkur. En ég hef líka trú á því að alþjóðasamstarf sé mikilvægt og það er mikilvægt. Það þýðir ekki að vera einn einhvers staðar í heiminum, ef svo má orða það, en við þurfum samt að vera okkar eigin gæfu smiðir. Við verðum að nýta öll tækifæri sem eru í boði alls staðar. Við megum ekki láta hefta okkur of mikið, sem ég óttast að Evrópusambandsaðild geri, verði of mikil hefting fyrir okkur. En gott og vel, hv. þingmaður, tökum þessa umræðu. Kannski nær hv. þingmaður að snúa mér einhvern tíma, kannski frekar í gjaldmiðilsmálum en í þessu. Maður veit aldrei hvenær kraftaverkin gerast.