151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu. Hún er alveg ágæt. Ég er reyndar svolítið hissa á þeirri nálgun sem sett er fram í þessari þingsályktunartillögu. Enn og aftur er reynt að fara einhverjar bakdyraleiðir að því að ganga í Evrópusambandið eins og flutningsmenn vilja. Það er ekki farin sú leið að leggja hreinlega til að þjóðin verði spurð: Vilt þú ganga í Evrópusambandið eða ekki? Einhvern veginn hafa talsmenn þessa ferlis, þ.e. að vilja ganga í Evrópusambandið, alltaf forðast þá spurningu, alltaf forðast að spyrja þjóðina beint hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki og hafa jafnvel gengið svo langt, alla vega hér áður fyrr, að segja að þjóðin þekki ekki nógu vel til. Auðvitað er alltaf skrýtið þegar þingmenn, þar á meðal sá er hér stendur, falla í þá gryfju að tala um þjóðina, það er svolítið erfitt að gera henni allri upp skoðanir og hugsanir.

Mig langar aðeins, virðulegur forseti, að nefna nokkur atriði sem ég tel vandræðaleg við þessa tillögu. Það er í fyrsta lagi, eins og ég nefndi áðan, að þora ekki að spyrja beint. Mér finnst ákveðnir árekstrar í þessu öllu saman. Það er annars vegar talað um endurupptöku viðræðna og hins vegar að halda viðræðum áfram. Þetta samræmist ekki að mínu viti. Hér er talað um eitthvert samstarf, þverpólitískt samstarf flokka, þó að allir viti í rauninni í þessum sal að Miðflokkurinn fer ekki í neitt samstarf um að ganga í Evrópusambandið. Það mun aldrei gerast þó að aðrir flokkar séu örugglega veikir fyrir einhverju slíku, sérstaklega í kosningum. Síðan er gengið út frá því í tillögunni að það sé bara til eitthvað sem er annaðhvort tvíhliða samstarf eða fjölþjóðasamstarf. Við Íslendingar erum sem betur fer í hvoru tveggja og við þurfum að vera í hvoru tveggja. Við þurfum að vera í alþjóðasamstarfi og við þurfum og eigum að vera í tvíhliða samstarfi líka.

Síðan er líka að mínu viti ákveðinn misskilningur að þetta styrki fullveldi með einhverjum hætti. Minn skilningur á því að ganga í Evrópusambandið er að með því sé gefinn eftir ákveðinn hluti af fullveldinu, að sjálfsögðu ekki sjálfstæðið en fullveldið er gefið eftir að stórum hluta og í stórum málaflokkum miklu meira en menn hafa nú þegar gert með EES-samningnum.

Svo er líka alveg furðulegt, hæstv. forseti, að líkja okkar ágæta samstarfi sem við eigum við þjóðir innan t.d. Atlantshafsbandalagsins, innan Norðurlandaráðs og í Sameinuðu þjóðunum við það að ganga í Evrópusambandið. Þarna er himinn og haf á milli, skuldbindingarnar eru allt aðrar. Það er allt annars konar bandalag eða samband eða samstarf sem við myndum gangast á hönd með því að ganga í Evrópusambandið. Annaðhvort er þessi samlíking sett fram af vilja til að villa um fyrir fólki — þarna er mikill misskilningur í það minnsta, mikill misskilningur eða einhvers konar vankunnátta. Ég verð að segja það. Stundum tala menn um gjaldmiðilinn og við þekkjum þá sögu í Evrópu og hvernig Íslandi hefur gengið að komast út úr þeim kreppum sem á okkur hafa sótt.

Mér finnst líka ákveðin sósíalísk hugsun í gangi í tillögunni af því að fram kemur að það er ákveðin hræðsla við fjölþjóðafyrirtækin, við stóru fyrirtækin. Hér er flokkur sem þykist tala fyrir atvinnulífinu en á sama tíma virðist hann leita í það að fela öðrum það að stjórna sér, leita í skjól valdsins, í skjól þess stóra sem getur þá hugsað og starfað fyrir viðkomandi.

Síðan finnst mér mjög undarlegt að í þessari tillögu og í ræðu flutningsmanns er talað í neikvæðum tóni, að mér finnst, um samstarf okkar Bandaríkjamanna og Breta, sem er mjög sérstakt. Ég veit ekki hvort ég á að eyða tíma, frú forseti, í að ræða þennan útúrsnúning, eða hvað á að kalla þetta, varðandi Icesave-málið allt saman þar sem það var ESA, Eftirlitsstofnun Evrópu, og Evrópusambandið sem fóru í mál við okkur Íslendinga vegna þess að þeir töldu okkur ekki uppfylla reglurnar sem þeir höfðu sett. Okkur bæri ákveðin skylda til að taka á okkur skuldir einkaaðila. Nú er þetta sama fólk, sem studdi það á sínum tíma að við ættum að borga þær skuldir, komið hér og vill að við förum aftur að brasa við að ganga í Evrópusambandið. Þetta er algjörlega galið.

Hér er búið að tala um viðskipti og annað og ég tek undir það að Evrópusambandið er vitanlega bara tollabandalag. Við höfum meira tollfrelsi í dag og hvað sem okkur finnst um svona mikið tollfrelsi þá er það klárlega meira hjá okkur en í Evrópusambandinu.

Varðandi bóluefnaklúðrið og leyndarhyggjuna í kringum það þá er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli hafa farið þá leið að færa Evrópusambandinu umboð okkar til að útvega bóluefni fyrir þjóðina. Það er mjög sérstakt að mínu viti, í stað þess að hafa smá kjark til að gera þetta sjálf. Við sjáum líka núna að það eru líklega um 30 þjóðir sem eru betur staddar varðandi bólusetningu heldur en Íslendingar, þó svo að vonandi fari þetta að ganga hraðar núna loksins þegar hillir undir þessi bóluefni.

Mig langar líka að nefna, frú forseti, varðandi EES-samninginn sem hefur aðeins verið ræddur að það var mjög sorglegt að mínu viti þegar hér var samþykkt að fara í ákveðna úttekt á EES-samningnum. Utanríkisráðherra tók það verk að sér. Það var skipuð nefnd sem skilaði svo af sér einhvers konar hallelúja-blaði eða hallelúja-skýrslu um þennan samning. Það var ekki reynt að horfa á hann með gagnrýnum augum og það er algerlega eftir. Það er alveg sama í hvaða alþjóðasamstarfi við erum eða tvíhliða samstarfi, við eigum alltaf að þora að skoða samninga okkar eða skuldbindingar gagnrýnum augum.

Mig langar líka að nefna atvinnulífið af því að það hefur t.d. verið fullyrt í þessum ræðustól að bændur myndu hafa það betra innan styrkjakerfis landbúnaðarins. Sjálfsagt hafa fáir rannsakað og kafað jafn mikið ofan í þær skuldbindingar og það sem er í boði hjá Evrópusambandinu eins og íslenskir bændur. Þeir hafa komist að því og gefið út rit um það, ekki bara einu sinni heldur oft, og fjallað um það að hagsmunum íslenskra bænda sé miklu betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þetta ættu menn að kynna sér áður en þeir fara fram með staðreyndavillur eins og hér hefur verið gert. Við þekkjum sjávarútveginn. Þegar talað er um að atvinnulífið fylgi reglum Evrópusambandsins þá er það bara hluti atvinnulífsins vegna þess að stór hluti af atvinnulífi okkar er sem betur fer undanþeginn þeim reglum, eins og landbúnaður og sjávarútvegur.

Frú forseti. Hér hefur verið rætt hvort Evrópubúar séu almennt sáttir við Evrópusambandið. Árið 2019 var í Frakklandi eiginlega jafnt skipt hverjir voru með og á móti því að vera áfram í sambandinu. Síðan var gerð könnun sem var birt á vefnum Euronews, Evrópufréttir held ég að megi þýði það yfir á íslensku, þar sem einstaklingar voru spurðir hvort þeir teldu líklegt eða ólíklegt að þeir myndu styðja útgöngu úr Evrópusambandinu ef Bretum gengi vel efnahagslega að fimm árum liðnum. Þetta er athyglisvert. Í Þýskalandi voru 30% sammála eða mjög sammála því að þeir myndu líklega vilja ganga úr Evrópusambandinu ef Bretum gengi vel. 45% Ítala svöruðu því jákvætt. 38% Frakka svöruðu jákvætt og 37% Spánverja því jákvætt að ef Bretum gengi efnahagslega vel eftir fimm ár þá myndu þeir líklega eða mjög líklega styðja það að ganga úr Evrópusambandinu. Þegar spurt var hins vegar eða skoðað hverjir voru á móti eða mjög á móti því að ganga úr Evrópusambandinu þá voru 38% Þjóðverja á móti, 8% fleiri en voru með því. Á Ítalíu eru einungis 20% á móti því eða mjög á móti því að ganga úr Evrópusambandinu ef Bretum gengi vel. Það er jafnt í Frakklandi og fleiri myndu vilja ganga úr sambandinu en vera í því á Spáni ef Bretum gengi vel.

Það er því ekki þannig, frú forseti, þó að flutningsmenn þessarar tillögu vilji láta sem svo, að allt sé í blóma í Evrópusambandinu og allir sáttir. Hvert klúðrið hefur rekið annað hjá þessu sambandi undanfarin ár. Efnahagshrunið mun elta lönd Evrópusambandsins árum eða áratugum lengur heldur en Ísland. Þeir réðu ekki við flóttamannavandann. Þeir hafa ekki ráðið við Covid-vandann. Þannig að maður velti því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum menn vilja nú í dag fara að reyna að komast inn í þetta bandalag. Fyrir utan það að ég veit ekki til þess að það sé verið að semja við nokkurt einasta ríki um inngöngu. Evrópusambandið á í svo miklum vanda innbyrðis, á í svo miklum vanda við að greiða úr sínum innri málum og innri flækjum, eða þá í samskiptum við nágrannaríki, það á bara nóg með sitt í dag. Það er ekki á það bætandi að við förum að álpast til þess að fara í einhverjar viðræður sem hér er talað um og er að mínu viti algjörlega galið á þessum tíma og öllum öðrum tímum, þannig að það sé alveg á hreinu.

Ég vil hins vegar ítreka það að Ísland á að taka þátt í fjölþjóðasamstarfi og alþjóðastarfi og tvíhliða starfi og tvíhliða samskiptum alls staðar þar sem við teljum þörf á því út frá hagsmunum Íslands og að sjálfsögðu líka hagsmunum heimsins, ef við getum lagt eitthvað til málanna. En það gerum við ekki með því að ganga í Evrópusambandið.