151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er mér lífsins ómögulegt að verja ríkisstjórnina þannig að ég veit ekki hvort þessi langa rulla um hana var til þess að draga það fram í dagsljósið að Miðflokkurinn væri einhver sérstakur blaðafulltrúi fyrir ríkisstjórnina, sem hann er ekki. (ÞKG: Nei, ég var …) En ég get hins vegar alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er skömmtun á málum sem má ræða á Íslandi og hér á þinginu. Við Miðflokksfólkið höfum viljað ræða málefni hælisleitenda og þeirra sem ferðast yfir landamæri á skynsamlegan hátt, á öfgalausan hátt en við komumst ekki að vegna þess að um leið og við opnum munninn um þetta er farið að arga á okkur að við séum rasistar og önnur ista-orð með f og n fyrir framan. Við náum ekki í gegn með vitræna umræðu um t.d. það mál.

Að treysta þjóðinni, segir hv. þingmaður. Við höfum verið töluvert fyrir það að treysta þessari þjóð og erum það enn. Ég veit ekki hvort þessi tillaga hér er sett fram með þeim hætti að það sé hægt að búa til úr henni spurningu fyrir þjóðina til að svara svo einhver skynsamleg niðurstaða náist. En síðan er eitt sem ég vil leiðrétta við hv. þingmann. Hún talar annars vegar um tvíhliða samninga og hins vegar um fjölþjóðasamstarf. Við erum í mjög miklu fjölþjóðasamstarfi. Við viljum ekki missa það fjölþjóðasamstarf. Við viljum ekki að eitthvert yfirvald stjórni okkar fjölþjóðasamstarfi. Við viljum gera það sjálf. Það er enginn beygur í okkur Miðflokksfólkinu við það. Við erum ekki hrædd við útlendinga, hér hefur stundum mátt skilja að svo sé. Það er firra, herra forseti. (Forseti hringir.) Við erum alþjóðasinnað fólk og viljum eiga samskipti við sem flesta.