151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór um víðan völl í ræðu sinni og það leyndi sér ekki hvaða skoðanir hann hefur á Evrópusambandinu og erindi okkar þangað. Það er svo sem ágætt að menn tali skýrt í þeim efnum. Það þarf þá ekkert að velkjast í vafa um það þó að ég hafi svo sem ekki gert það áður. Mér þótti það hins vegar talsverður ljóður á máli hv. þingmanns að grípa til þess, sem formaður þess ágæta flokks sem hann er þingmaður fyrir, að fara út í merkimiðapólitík. Hann setti einn lítinn merkimiða á Viðreisn og kallaði Viðreisn einsmálsflokk. Nú veit ég að hv. þingmaður er gjarnan hér í þinginu og fylgist ágætlega vel með þingstörfum og ég bið hann bara af allri sanngirni að fara yfir þingmálaskrá Viðreisnar, fara yfir ræður okkar þingmanna og vita hvort hann getur fundið þessum orðum sínum einhvern einasta stað. Þetta er því miður sá farvegur sem menn vilja gjarnan leiða þessi mál í, forðast efnisumræðuna, draga upp merkimiðana og smella því sisvona á heilan stjórnmálaflokk að hann sé einsmálsflokkur. Það er í hæsta máta ósmekklegt og í hæsta máta ósanngjarnt og það sem verst er: Það er ekki í neinu samræmi við sannleikann.