151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:21]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að þetta er með því aumara sem ég hef heyrt hér í andsvörum í þinginu. Hér var spurt einfaldrar spurningar og farið mjög vandlega yfir það að fullyrðingar hv. þingmanns væru rangar en hv. þingmaður gerði ekki nokkra einustu tilraun til að renna nokkrum einustu stoðum undir fullyrðingar sínar heldur fór að tala um glerhús og steina. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja við svona en þetta sýnir manni kannski að menn sjást ekki fyrir þegar þeir sveipa sig þeim hjúpi að þeir vilji gjarnan ræða málin, þeir fagni umræðunni því að nú sé loksins hægt að tala um málin. En hvað gera menn þá? Menn tala bara ekkert um málin. Menn fara í einhverja undarlega vegferð. Mér þætti vænt um að hv. þingmaður gerði að umtalsefni hvaða álit formaður hans flokks hefur á því sem hann kallar merkimiðapólitík og hvort hann telji að hans málflutningur hér í garð Viðreisnar sé merkimiðapólitík eða ekki og hvort þetta sé þá merkimiðapólitík sem sé Miðflokknum þóknanleg, hvort þetta sé pólitík Miðflokksins. Það er nú þannig að þegar menn predika mikið um það hvernig aðrir eigi að haga sér þá er mjög gott að reyna að sýna gott fordæmi. Þar mistókst hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hrapallega hér í ræðustól.