151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór um víðan völl í ræðu sinni um þetta góða þingmannamál okkar í Viðreisn. Ég verð að segja að ég hef heyrt hv. þingmann flytja þessa ræðu býsna oft, sem er kannski sérstakt í ljósi þess að þetta tiltekna mál hefur ekki verið á dagskrá áður. Ég verð eiginlega líka að segja að hún batnar ekki með tímanum. Það er af ýmsu að taka í þeim fullyrðingaflaumi sem hv. þingmaður lét flakka í ræðu sinni. En mig langar til að beina sjónum mínum sérstaklega að því sem hann sagði um fiskveiðistjórnarlöggjöf Evrópusambandsins vegna þess að við erum jú mikið, ekki síst síðustu daga, að ræða mál sem varðar sjávarútveginn okkar og þar kemur ýmislegt til, hlutir sem við erum ekki sammála um, t.d. mikilvægi þess að hér sé tímabinding á aflaheimildum til hagsbóta fyrir þjóðina o.s.frv. Ég veit að það er ekki málið hér en ég vil bara draga það fram af hverju þetta er mikið mál.

Hv. þingmaður fór sem sagt með rangfærslur um fiskveiðistjórnarlöggjöf Evrópusambandsins þegar hann hélt því fram að yfirráð yfir auðlindinni okkar myndu færast yfir til Brussel þegar við göngum í Evrópusambandið. Það er áhyggjuefni að þetta skuli sífellt vera mantra þeirra sem eru einna helst andstæðingar þessa vegna þess að staðreyndin er sú að það eru grunnskyldur um fiskveiðistjórn og eftirlit í Evrópusambandinu sem eru að miklu leyti það sama og við búum við hér. Það er líka þannig um veiðileyfi að þar gilda lög hverrar þjóðar fyrir sig. Vísindalegt mat hverrar þjóðar á hafsvæðum sínum ræður heildarafla af nytjastofni (Forseti hringir.) og það gildir þar regla sem snýst um það að hlutfall ríkja í heildarafla haldist stöðugt og byggi á veiðireynslu. Þetta er einfaldlega ekki (Forseti hringir.) flóknara en svo þannig að ég óska eftir nánari útskýringum á fullyrðingu (Forseti hringir.) um það að yfirráðin færist yfir til Brussel. Hún er röng.

(Forseti (GBr): Forseti hvetur þingmenn enn og aftur til þess að halda tímamörkin.)