151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[16:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að fátt þreytir mig meira en löggjöf af þessu tagi, ég er nánast kominn að fótum fram að hlusta á þær ræður sem hafa verið fluttar hér, flestar þó ekki allar, hv. 8. þm. Reykv. n. Það kann að vera að ég sé steintröll, ég vil ekki útiloka það, en fyrir mér er löggjöf til að kveða á um réttindi og skyldur okkar og leikreglur sem við viljum fara eftir. Löggjöf er ekki eitthvað til að sýnast. Löggjöf er ekki til að setja einhver ákvæði um markmið og einhverja sýndarmennsku sem er ekki einu sinni bindandi. Mín kímnigáfa nær ekki svo langt að taka þátt í slíku. Og þegar menn eru einhvern veginn að reyna að tengja þetta feðraveldinu, miðaldra vondum körlum, þá hugsar maður með sér: Já, við erum komin þangað. Við erum að setja lög sem byggjast á einhverju slíku.

Ég velti oft fyrir mér hugtakinu jafnræði, jafnrétti; þetta snýst allt um að mismuna ekki neinum á grundvelli einhvers. Við eigum ekki að mismuna neinum á grundvelli kyns, kynþáttar o.s.frv. En þegar við erum að kjósa í nefndir þá er ekki eina viðmiðið hvers kyns menn eru. Ég er maður fjölbreytileikans, en bíddu, snýst þetta allt um einhver kyn? Erum við alveg hætt að vera einstaklingar? Það eru mörg önnur sjónarmið uppi en kynið. Það getur verið aldur, fyrri störf, reynsla og þekking. Nei, og þetta erum við að gera á sama tíma og við eigum líka öll að vera kynlaus, og það eiga að vera til mörg kyn. Er von að maður klóri sér í hausnum? Ég veit ekki hvert þingheimur er að fara. Svo er hann að gorta sig af því að við séum fyrst, að hinir eigi eftir að koma. Ég held að hin þingin horfi bara á okkur eins og hver önnur flón. Ég held að það sé ekkert annað sem gerist. Þegar maður hlustar á ræður hv. þingmanna, þekkta fórnarlambsfrasa, feðraveldisfrasa, og þetta á að fara að snúast um það þá spyr ég: Hvert erum við komin? Það er enginn lengur einstaklingur, hann tilheyrir bara einhverjum hópi. Það er eins og allir sem eru konur eða allir sem eru karlar séu alltaf eins. Það er ekki þannig. Ég ráðlegg okkur að hætta þessari þvælu. Þetta er bara sýndarmennska. Tilgangslaust, gerir okkur að athlægi, alla vega þegar fram í sækir.

Hæstv. forseti. Ég læt staðar numið áður en ég æsi mig meira.