151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:41]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að tala um það mál sem hér liggur fyrir. Það er jákvætt að það er verið að gefa nefnd um eftirlit með lögreglu heimild til að taka afstöðu til kvartana sem henni berast um aðfinnsluverða framkomu og starfsaðferðir lögreglu. Hins vegar verð ég að gera athugasemdir við 6. gr. frumvarpsins sem, eins og hefur komið fram, gefur heimild til að veita erlendum lögreglumönnum lögregluvald hér á landi. Með lagagreininni hefur ráðherra nokkurt svigrúm til að útfæra samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld í reglugerð en það vantar þó upp á að lagagreinin sjálf sé nægilega afmörkuð. Það skýtur skökku við að vera að lögleiða það að veita erlendum lögreglumönnum leyfi til að fara hér með lögregluvald án þess að skilgreina nánar í lögunum sjálfum í hverju það felst nákvæmlega. Ef erlend lögga gerist t.d. brotleg í starfi hérlendis, hvernig er unnt að hafa eftirlit með því og beita viðurlögum? Er lögregluvaldið takmarkað að einhverju leyti? Hvernig er með upplýsingagjöf til þeirra sem hér koma til starfa? Sama má segja um íslenska lögreglumenn sem myndu fara með lögregluvald erlendis. Hvað þýðir að þeir hafi þar sömu réttindi og skyldur? Hvað gerist ef þeir verða brotlegir í störfum erlendis?

Valdheimildir þurfa alltaf að vera skýrlega afmarkaðar og skýrar í lögum. Handhafar lögregluvalds hafa heimildir til að hafa afskipti af borgurum og þurfa að gæta meðalhófs við beitingu valds síns. Mat lögreglu á Íslandi verður að teljast víðtækt við beitingu þó nokkuð margra reglna. Hvernig mun það mat líta út þegar erlent lögreglufólk fær valdheimildir hér á Íslandi? Munu þau fá fræðslu í því meðalhófi sem viðgengst eða munu þau geta beitt víðari túlkun á það lögbundna mat sem er nú þegar til staðar? Hvað gerist ef einstaklingur er ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni ef um erlent lögreglufólk er að ræða? Mun verða unnt að ákæra einstaklinga fyrir þau brot? Og ef við lítum á hina hliðina, mun einstaklingur hafa rétt til þess að kæra erlent lögreglufólk sem fer út fyrir valdheimildir sínar? Mun verða tryggt að erlent lögreglufólk fái fræðslu um íslenskt réttarskipulag?

Þá vantar hér að fjalla um og taka tillit til réttinda hins almenna borgara með þessari lagabreytingu. Það segir ekkert um að tryggja eigi að einstaklingur haldi sínum réttindum gagnvart lögreglunni, hvort sem það er íslensk lögregla erlendis eða erlend lögregla sem kemur hingað til lands. Ég velti því þess vegna upp hvort réttindi einstaklinga gagnvart valdstjórninni séu nægilega tryggð með innleiðingu þessara heimilda. Ákvæðið er ekki nægilega skýrt og er mjög opið og veitir ráðherra víðtæka reglugerðarheimild.