151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það fá allir upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði sem koma hingað, þ.e. þeir hælisleitendur sem koma til landsins fá þessar upplýsingar nú þegar. Það er hins vegar verið að bæta þjónustuna, þeir fá meira en það sem þeir fá í dag. Um það snýst málið. Það er ekki hægt að fela sig á bak við það að verið sé að setja peninga í Fjölmenningarsetur til að veita upplýsingar. Þær eru þegar til staðar. Það er hins vegar verið að bæta þjónustuna og það eru skilaboð sem er þá verið að senda út í heim um að hér sé veitt betri þjónusta en var og hún var þó mjög góð og ein sú besta í Evrópu. Það veldur mér áhyggjum af því að hingað muni streyma mun fleiri hælisleitendur en gera í dag vegna þess að þeir leita náttúrlega þangað þar sem þjónustan er best. Við verðum bara að átta okkur á því að við getum ekki bjargað heiminum. Við getum ekki hjálpað öllum, það er nú einu sinni þannig. Þessi málaflokkur kostar 4 milljarða kr. á ári og hann hækkaði reyndar í aukafjárlögum um 400 milljónir þó svo að komum hælisleitenda hafi fækkað. Það var skýrt út með því að það væri vegna hækkunar á húsnæði og launum o.s.frv. Þessi málaflokkur er orðinn mjög dýr og meðan verið er að herða reglurnar á Norðurlöndum þá erum við að rýmka þær hér á Íslandi. Það þýðir bara eitt, við fáum hingað fleiri umsóknir og það kostar meiri peninga. Og hvar á að fá þann pening, hv. þingmaður? Núna þegar ríkissjóður hefur aldrei verið eins skuldsettur þá á að fara að bæta í eitthvað sem er algjörlega ófjármagnað eins og var sagt hér áðan og hv. þingmaður sagði reyndar að hún vonaðist til þess að kostnaðurinn yrði ekki mikill.

Þetta frumvarp felur í sér grundvallarbreytingu sem gerir það að verkum að kostnaður ríkissjóðs eykst og það er eitthvað sem menn verða að svara fyrir, hvaðan þeir peningar eiga að koma.