151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:39]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem aðallega hingað upp til að fagna frumvarpinu og þakka framsögumanni velferðarnefndar fyrir flutning á nefndaráliti. Það er ánægjuefni að verið er að styrkja þá umgjörð sem við höfum haft varðandi flóttamenn af hvaða ástæðum sem þeir koma til Íslands og styrkja þar með umgjörðina um þá sem eru framandi í íslensku samfélagi, innflytjendur af öllu tagi, en þeir eru orðnir nokkur hluti af íslenskri þjóð, eru sjálfsagt um 14% af landsmönnum. Við erum orðin býsna fjölþjóðleg á Íslandi en eflaust má deila um það og mér heyrist það á máli þeirra sem hér eru staddir í þingsal að ekki sé hægt að tala um að við séum orðin fjölmenningarleg.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. framsögumann út í frumvarpið. Það kemur fram að styrkja eigi Fjölmenningarsetur með því að setrið verði áfram á Ísafirði og með starfsstöðvar á Reykjavíkursvæðinu. Kemur til álita, að mati þingmanns, að starfsmenn með sérþekkingu séu víðar um landið — mér dettur Vinnumálastofnun í hug sem að nokkru leyti er að takast á við verkefni sem tengjast þessu — í ljósi þess að innflytjendur og flóttamenn búa víða um landið?