151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra sem út af fyrir sig er um afmarkað efni, fjallar að meginstefnu til um fjölgun starfsmanna í svokölluðu Fjölmenningarsetri um tvo og breytta skipan í innflytjendaráði þannig að fulltrúi heilbrigðisráðherra eigi þar sæti. Þetta frumvarp, þótt afmarkað sé að efni, gefur engu að síður tilefni til að ræða þessi málefni í víðara samhengi en efni frumvarpsins fjallar beinlínis um.

Frú forseti. Stefnan í innflytjendamálum og þá um leið móttaka hælisleitenda er orðin úrlausnarefni sem enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur látið fram hjá sér fara. Við höfum orðið vitni að því margsinnis hér á landi og annars staðar að leitast er við, eins og komist er að orði nú til dags, að jaðarsetja þessa umræðu, og þá á vafasömum forsendum og gjarnan með upphrópunum. Þessir tímar mega heita liðnir í okkar nágrannalöndum og víðast hvar í Evrópu. Nú reyna mörg samfélög sem við lítum til að bæta fyrir aðgerðaleysi og ranga stefnu í fortíð og vinna sig í gegnum þessi mál í von um, eins og við sjáum svo glögglega í Danmörku, að missa ekki samfélög sín í sundrungu og upplausn.

Við erum hér í 2. umr. um þetta mál, 1. umr. var svolítið sérkennileg fyrir margra hluta sakir, þar á meðal fyrir það að það var eins og hæstv. ráðherra væri allókunnugur málinu og þráspurði þingmenn sem tóku þátt í umræðunni hvort þeir væru andvígir því að hælisleitendum eða innflytjendum væri kennd íslenska. Það er hvergi minnst á íslenskukennslu í frumvarpinu og ég heyrði ekki framsögumann málsins minnast á íslenskukennslu þegar hún hafði framsögu fyrir nefndaráliti. Það var svolítið sérkennilegt að verða vitni að því að umræðu sem hér fór fram skyldi reynt að drepa á dreif með vísunum í eitthvað allt annað en málið snýst um.

Tölurnar tala skýru máli. Þær er til að mynda að finna í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, þar er heill kafli þar sem fjallað er um breytingu á útlendingalögum. Þar kemur fram að hvergi á Norðurlöndunum eru jafn margar umsóknir um alþjóðlega vernd og hér á landi sé miðað við höfðatölu. Þær upplýsingar eru raktar til öruggrar heimildar sem er Útlendingastofnun. Þar kemur fram að hlutfallslega eru sexfalt fleiri sem sækja um hér en í Noregi og Danmörku, sexfalt, þrefalt fleiri en í Finnlandi og meira að segja fleiri en í Svíþjóð. Við hljótum að velta þessum tölum fyrir okkur. Við hljótum að þurfa að horfast í augu við þessar tölur og við hljótum að þurfa að svara því hvað þær segja okkur. Það sem blasir auðvitað við í því sambandi er að þetta móttökukerfi er sprungið og það sést líka þegar litið er til þess hversu ógnarmikilla fjármuna þetta kerfi krefst.

Ekki er annað að sjá, þegar maður lítur á þá stefnumörkun sem orðið hefur í nágrannalöndunum, en að við séum að verða viðskila við þau. Það er ekki annað að sjá en að við séum hér að lappa upp á kerfi sem þau lýsa sem mistökum. Sterkasta yfirlýsingin um þetta kemur frá formanni danska jafnaðarmannaflokksins sem átti sér hér skoðanabræður og -systur í salnum, kannski einn núna, og flokkssystkini. Hún segir í stefnuræðu sinni í danska þjóðþinginu 6. október, á samkomudegi þingsins, að stefna fortíðar sé mistök. Hún notar það orð, mistök. Hún segir sömuleiðis í þessari ræðu að evrópska hælisleitendakerfið sé sprungið og vísar þar náttúrlega til brotalama í Schengen-samstarfinu.

Ég vil leggja áherslu á það, þegar um þessi mál er fjallað, að þetta er auðvitað viðkvæmt málefni og ber að fjalla um það af virðingu. Hv. framsögumaður fyrir nefndaráliti áðan hefði kannski getað sýnt örlítið meiri virðingu, a.m.k. í orðavali, þegar hún gerði mönnum það upp að þeir hefðu vægast sagt mjög ankannaleg sjónarmið í þessu máli. Það er ekki góður bragur á því, frú forseti, að gera mönnum upp skoðanir eða dylgja um hvað mönnum gengur til.

Ég tel það fullvíst, frú forseti, að það sé mikill stuðningur við það meðal þjóðarinnar að við leggjum okkar af mörkum til þeirra sem standa höllum fæti í umheiminum. Við höfum lagt okkur fram en við mættum gera miklu meira. Við höfum um langt árabil tekið þátt í þróunarsamvinnu og þá ekki síst fyrir atbeina þátttöku okkar í Alþjóðabankanum þar sem við erum reyndar meðal stofnenda 1944 eða 1945, ég man ekki hvort var. Þar er komin mjög mikil reynsla á þá starfsemi og hún hefur skilað miklum árangri. Við þurfum, frú forseti, að vega það og meta með hvaða hætti við ráðstöfum því takmarkaða fé sem við höfum til verkefna af þessu tagi. Við þurfum að leggja það niður fyrir okkur með hvaða hætti þessu fé er best varið. Hvernig er því best varið? Því er best varið með því að það nái til sem flestra og til þeirra sem mest þurfa á hjálp að halda. Og þá vil ég leyfa mér að bæta því við að við eigum auðvitað að huga sérstaklega að viðkvæmum hópum og þá nefni ég sérstaklega konur og börn.

Frú forseti. Eins og ég gat um þá fer danski jafnaðarmannaflokkurinn fyrir ríkisstjórn í Danmörku og formaður hans, Mette Frederiksen, er forsætisráðherra. Ég hef áður leyft mér að vitna til stefnuskrár danska jafnaðarmannaflokksins sem um margt á sér mjög merka sögu og hefur lagt til mikilhæfa forystumenn á dönskum stjórnmálavettvangi. Jafnaðarmannaflokkurinn gaf út stefnuskrá fyrir þingkosningarnar 2019 sem ber yfirskrift sem mætti þýða: „Sanngjörn og raunhæf heildaráætlun um danska útlendingastefnu“. Þetta rit heitir á danskri tungu, svo að ég nefni það nú rétt, Retfærdig og realistisk helhedsplan for dansk udlændingepolitik. Þarna er mjög mikið efni á 14 síðum. Ég vil geta þess að þetta rit samanstendur af þremur meginköflum og síðan skiptast þeir kaflar í undirkafla. Fyrsti aðalkaflinn heitir: Fjöldinn hefur þýðingu. Þar er skorin upp herör gegn þeirri aflögðu trúarsetningu sem áður réð ríkjum í danskri umræðumenningu, að það mætti ekki tala um fjöldann. Nú segja danskir jafnaðarmenn: Fjöldinn hefur þýðingu. Annar meginkafli af þessum þremur heitir: Við viljum hjálpa fleirum. Það þýðir og er rakið, líka í ræðum og skrifum danskra jafnaðarmannaráðherra, að nýta fé til að hjálpa fólki sem næst heimaslóð enda nýtist það svo margfalt, margfalt betur þar. Þarna tel ég að okkar áherslur eigi að liggja, frú forseti, þ.e. annars vegar í því, eins og Danirnir segja, að hjálpa fólkinu nær heimaslóð, nýta féð sem best, hjálpa margfalt fleirum. Svo með hinu, að leggja áherslu á þróunarsamvinnu.

Það var mjög athyglisverð grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skemmstu sem ung kona sem er aðstoðarmaður utanríkisráðherra ritaði og heitir Diljá Mist Einarsdóttir. Hún rakti það að það að sjá 1.000 manns í okkar samstarfsríkjum, við erum með samstarfsríki í Afríku þar sem við erum með tvíhliða þróunarsamstarf, fyrir heilnæmu vatni og þá um leið hreinlætisaðstöðu sem fólki er bjóðandi kosti 4 millj. kr. Þetta hælisleitendakerfi kostar 4 milljarða á ári a.m.k. Fyrir 4 milljónir er hægt að bólusetja 1.700 börn. Eru þetta ekki mál sem við ættum að vera að tala um hérna? Heilnæmt vatn, bólusetningar barna, skólar, sjúkrastofnanir?

Frú forseti. Þriðji uppistöðukaflinn eða meginkaflinn í hinni dönsku stefnuáætlun jafnaðarmanna ber yfirskriftina: Hin nýja sjálfstæðisbarátta. Jú, nú kunna einhverjir að sperra eyrun. Á danskri tungu heitir kaflinn: Den nye frihedskamp. Komið er víða við í þessari stefnuyfirlýsingu en það sem hæst ber er að jafnaðarmannaflokkurinn hafnar afdráttarlaust gildandi stefnu í málaflokknum, þ.e. þeirri stefnu sem áður ríkti en þeirri stefnu sem við sýnumst vilja fylgja sem ákafast. Þau segja í skýrslunni og Mette Frederiksen hefur sagt í ræðum, þar á meðal í ræðu sinni 6. október 2020, að þessi stefna fortíðar valdi alvarlegu óréttlæti þar sem fólk á flótta setji sig í lífshættu og þar sem menn af misjöfnu sauðahúsi, svo að vægt sé orðað, hagnist á ógæfu annarra. Það er meginstefnumál danskra jafnaðarmanna, og fyrir liggur frumvarp þess efnis, að sett verði á laggirnar móttökustöð utan Evrópu þannig að heimilt verði í lögum að flytja þá sem banka á dyrnar, hafandi lagt á sig langa og lífshættulega ferð, margir auðvitað farist á leiðinni, í slíka móttökustöð. Þetta eru skilaboð sem danska jafnaðarmannaríkisstjórnin er að senda út í heim. Þetta eru alveg skýr skilaboð: Ekki koma, vegna þess að þið verðið send í móttökustöð.

Norska ríkisstjórnin segir í sinni samstarfsyfirlýsingu, í stjórnarsáttmálanum, að hún vilji fylgja Evrópu í þessu. Sumir danskir þingmenn segja það sama, að þetta eigi ekki að vera einkaframtak Danmerkur heldur eigi þetta að vera evrópskt framtak enda hefur þetta verið rætt á leiðtogafundi í Evrópu og vitað er að ýmis stór og mikilvæg Evrópuríki hafa áform í þessum efnum. Þar á meðal eru nefnd, í hinu danska plaggi, Þýskaland og Frakkland.

Frú forseti. Þessi skilaboð dönsku jafnaðarmannaríkisstjórnarinnar eru eins og þau eru, en hvaða skilaboð erum við að senda? Við erum að ræða hér frumvarp þar sem segir í greinargerð að taka eigi upp það nýmæli hér að flóttamönnum verði boðin sama þjónusta og kvótaflóttamönnum sem svo eru nefndir og eru hér sérstaklega komnir í boði stjórnvalda á grundvelli samstarfs við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þessi skilaboð eru því mjög ólík hinum og af þeim ástæðum leyfi ég mér að segja að við séum orðin viðskila við nágranna okkar á Norðurlöndunum. Ég hef nefnt bæði Danmörku og Noreg. Ég vil líka nefna Svíþjóð. Það eru miklar hræringar í Svíþjóð. Bæði er vísað til yfirlýsingar Stefáns Löfvens á síðasta ári sem þótti sýna breytta stefnu af hálfu sænskra jafnaðarmanna, sænskra krata, systurflokks Samfylkingarinnar. Sömuleiðis er það svo, ef við hugsum um það að hann á svolítið erfitt um vik vegna þess að hann er í samstarfi með Græningjum sem vilja óbreytta stefnu, að nú hafa fjórir sænskir stjórnmálaflokkar tekið höndum saman og ræða um það að herða öll tök í þessum málaflokki. Það er vitað að fyrir þessu er sömuleiðis mikill áhugi í sænska jafnaðarmannaflokknum en hann á erfitt um vik verandi í því samstarfi sem hann er í. Að lokum vil ég bara segja: Nýtum féð sem best, hjálpum sem flestum.