151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég færði rök fyrir því í upphafi máls míns að þetta mál væri út af fyrir sig þröngt og afmarkað og fjallaði um bætta upplýsingamiðlun og um breytta skipan á innflytjendaráði þannig að þar sitji við borðið fulltrúi ráðuneytis. Ég rakti meira að segja efni frumvarpsins. Með sömu rökum og hv. þingmaður teflir fram, eftir að hún hafði flutt hér einhvers konar veðurfréttir og fjallað um óskyld málefni, ætti að auka stuðning af hálfu ríkisstjórnarinnar við aldraða og öryrkja. Af hverju er það ekki gert? Af hverju er það ekki gert af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hv. þingmaður styður og hennar flokkur er þátttakandi í? Ef það þarf ekkert að velta peningum fyrir sér, afleiðingum af ákvörðunum eða afleiðingum af því sem sagt er eða sett inn í greinargerðir og inn í þingskjöl, ef peningar skipta engu máli í huga hv. þingmanns, sem þeir gera greinilega ekki, af hverju beitir hv. þingmaður sér þá ekki í þágu þess fólks sem þarf að losna undan öllum þeim hamslausu skerðingum sem hér eru látnar viðgangast ár eftir ár og hafa verið látnar viðgangast í þau fjögur ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið með stuðningi hv. þingmanns?

Og hvað á það að þýða, frú forseti, að hv. þingmaður skuli koma hér og bjóða upp á það að fara að tala um kynþætti? Það var ekkert minnst á kynþætti í minni ræðu. Hvað á það að þýða að leggja samþingmönnum sínum hér orð í munn? Ég vísa svona málflutningi gjörsamlega á bug.