151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að það gerir mig dapra að hlusta á málflutning þingmanna Miðflokksins. Þetta mál lýtur að því að fela Fjölmenningarsetri víðtækara hlutverk vegna samræmdrar móttöku flóttafólks, með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks með ýmsum hætti, sem er ekkert annað en að styrkja þjónustu við fólk sem hingað kemur á flótta. En fulltrúar Miðflokksins, og hv. þm. Ólafur Ísleifsson í sinni ræðu, nýta þetta mál, sem snýst um að auka þjónustu, auka upplýsingagjöf til viðkvæms hóps í samfélagi okkar, í útúrsnúninga þegar kemur að málefnum innflytjenda. Ég verð að játa það, frú forseti, að það gerir mig dapra. Það eru vonbrigði, þess háttar útúrsnúningar. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir talaði, í andsvari sínu til hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, um íslenskukennsluna sem er ekki innihald þessa máls. Það er á forræði hæstv. menntamálaráðherra og er ekki til umfjöllunar hér.

Í ræðu sinni fór hv. þm. Ólafur Ísleifsson vítt og breytt yfir málefni innflytjenda og mig langar að vita hvort hann sé því mótfallinn að veita þessum viðkvæma hópi, sem til okkar leitar eftir vernd og er á flótta, hefur upplifað ýmislegt, (Forseti hringir.) betri þjónustu sem gagnast ekki bara þessum hópi heldur samfélaginu öllu. Er hann virkilega á þeim stað í sinni pólitík að hann sé á móti því?