151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[13:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða. Það er mikilvægt að ræða efnahagsmál. Ég tel að það að vinna bug á atvinnuleysi sé stóra verkefnið sem er fram undan. Það voru jákvæðar tölur sem komu fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan en betur má ef duga skal og við þurfum sérstaklega að huga að því að langtímaatvinnuleysi festi sig ekki í sessi hér. Ég get tekið undir það að hækkun á verðbólgu sé áhyggjuefni. Sem betur fer gera spár ráð fyrir því að hún hjaðni þegar líður á árið. En það þýðir ekki að við þurfum ekki að vera með augun á því og mér fannst jákvætt sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra hér í þessum ræðustóli í dag að það sé sérstaklega verið að skoða stöðuna á húsnæðismarkaði og að húsnæðismál verði á dagskrá næsta fundar þjóðhagsráðs. Það er vel.

Ég get ekki tekið undir með málshefjanda, hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni, um að krónan sé sökudólgurinn eða á einhvern hátt kannski upphaf eða endir vandans hér. Ég er ekki sammála því. En hvað varðar framtíðina þá tel ég að það séu nokkur atriði sem þurfi að tvinna saman í framtíðarsýninni við það að byggja upp atvinnulíf og efnahag. Við verðum að vaxa út úr þessari efnahagskreppu en uppbyggingin og atvinnusköpunin sem fer í hönd verður að vera loftslagsvæn (Forseti hringir.) og hún verður að tryggja félagslegt réttlæti því að það er eina leiðin sem dugir fram á við.