151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[15:03]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla að sitja hjá í þessu máli nema við 6. gr. frumvarpsins sem fjallar um það að íslensk yfirvöld geti veitt erlendum lögreglumönnum valdheimildir hér á landi. Ég átta mig á að þetta er til að efla samstarf við evrópsk lögregluyfirvöld sér í lagi, en lagagreinin er mjög víðtæk, hún er mjög rúm og það er mjög lítið útskýrt í lagagreininni sjálfri og greinargerðinni með frumvarpinu hvernig þessu eigi að vera háttað. Þar kemur fram að dómsmálaráðherra hafi heimild til að setja nánari reglur í reglugerð. Það eitt og sér þýðir ekki að það sé útskýrt hvernig eigi að framkvæma þetta. Mér þykir því 6. gr. frumvarpsins of rúm og reglugerðarheimild dómsmálaráðherra allt of víðtæk eins og þetta er sett fram.