151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er bara ekki samkvæmur sjálfum sér. Hann gerir engar athugasemdir við að hingað komi einstaklingur frá Georgíu á kostnað ríkisins í marga mánuði og fari á brott tæpu ári síðar, þá búinn að kosta einhverjar 6 millj. kr. úr ríkissjóði, átti ekki rétt á því að koma hingað en langaði bara að heimsækja landið. Á sama tíma segir hv. þingmaður að ekki eigi að misnota kerfið. Ég var að benda á misnotkun á kerfinu. Sjálfsagt mega menn koma hingað sem ferðamenn en þeir mega ekki koma hingað á fölskum forsendum (HHG: Og vinna?) og láta ríkissjóð borga fyrir það. Það er misnotkun á kerfinu. Hv. þingmaður hlýtur að skilja það. (HHG: Ég skil.) Já, það er gott að heyra það. Þetta er kjarni málsins og það þarf að koma í veg fyrir þessa misnotkun vegna þess að við getum notað peningana með miklu skilvirkari hætti, t.d. í flóttamannabúðum erlendis og víðast hvar í stríðshrjáðum löndum eru börn og konur og fleiri sem þurfa svo sannarlega á aðstoð að halda. Ég vil nýta þá fjármuni til að hjálpa þessu fólki en ekki í einhvern lögfræðikostnað og alls konar kostnað sem fylgir því að hafa fólk hér í marga mánuði sem fær síðan þá niðurstöðu að það hefði ekki átt að koma hingað og að það hafi komið hingað á fölskum forsendum. Þetta þarf að stoppa. Þetta stoppa nágrannalöndin, hv. þingmaður. Við hljótum öll að vera sammála um að við eigum að gera slíkt hið sama. Það er bara þannig. En við eigum hins vegar að sinna þeim vel sem þurfa á hjálp að halda og ég hef sagt það að ég vil sérstaklega að við stefnum að því að velja sjálf þá flóttamenn sem koma til landsins. Þá getum við svo sannarlega komist að því hverjir þurfa á þjónustunni að halda eins og við höfum gert í gegnum alþjóðastofnanir. Við höfum tekið á móti kvótaflóttamönnum, ég er alls ekki á móti því. Við eigum að sinna þeim vel. Ég styð það.