151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ætli það sé ekki átt við að það hjakki í sama farinu, svo ég reyni að aðstoða hæstv. forseta án þess að ég viti svarið sjálfur. En hvað um það, við ræðum hér mál sem er mjög lýsandi fyrir það hvernig þessi ríkisstjórn, og raunar fleiri, nálgast pólitíkina nú til dags. Allt byggist á umbúðunum og yfirlýstum markmiðum en ekki raunverulegu eðli málsins og innihaldi, hvað þá raunverulegum áhrifum málsins. Hv. framsögumaður þessa máls undirstrikaði eðli þess í ræðu hér í gær við upphaf umræðunnar þar sem hv. þingmaður gekk svo langt að halda því fram, áður en umræðan hófst að öðru leyti en með ræðu hv. framsögumanns, að öll gagnrýni á málið hlyti að byggjast á kynþáttahyggju.

Herra forseti. Kynþáttahyggja er eitt það versta sem hægt er að saka fólk um. Það að reyna að nýta slíkar ásakanir að tilefnislausu og meira að segja fyrir fram til að reyna að koma í veg fyrir umræðu, lýðræðislega umræðu um stórt og mikilvægt mál, er að mínu mati skammarlegt. Ég hefði viljað sjá þann forseta sem þá sat í forsetastóli bregðast við og hvetja hv. þingmann til að gæta orða sinna. En því miður er það orðin lenska úr ákveðnum áttum popúlískra stjórnmála að varpa fram ásökunum um allt hið versta til að reyna að stimpla menn og helst að koma í veg fyrir að vera ögrað með umræðu, með rökræðu. Það var leiðinlegt að sjá hv. þingmann gera tilraun til slíks við upphaf umræðu um þetta mikilvæga mál því að þetta er mikilvægt mál, þetta er stórmál. Málefni flóttamanna eru með stærstu viðfangsefnum heims þessi misserin. Og ef við getum verið sammála um að það sé stórt mál hljótum við að vilja nálgast það á þann hátt sem skilar mestum árangri og hjálpar flestum, gerir mest gagn fyrir þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Við hljótum þá líka að vera tilbúin í umræðu um hvernig það sé best gert í stað þess að mæta hér með einhverjar umbúðir og bera menn sökum fyrir fram ætli þeir sér að efna til gagnrýninnar umræðu.

Það virðist einmitt vera að málið þoli ekki umræðu af hálfu þeirra sem leggja það fram hér. Í þeirri þó tiltölulega litlu umræðu eða tilraunum stuðningsmanna málsins til að skýra það hafa þeir iðulega og nánast undantekningarlaust leitast við að endurskilgreina málið. Hæstv. félagsmálaráðherra gerði það helst með því að hamra á því aftur og aftur að þeir sem væru á móti málinu eða hefðu um það einhverjar efasemdir væru á móti því að útlendingar fengju að læra íslensku. Þetta greip ráðherrann auðvitað úr lausu lofti. Raunar hefur framsögumaður málsins útskýrt að ráðherrann hafi haft rangt fyrir sér hvað varðar áhrif málsins á íslenskukennslu. Að öðru leyti er hjakkað í því sama fari að þetta snúist um að menn geti veitt upplýsingar, að hægt verði að miðla upplýsingum. Í staðinn er algerlega litið fram hjá yfirlýstu markmiði sem frumvarpið á að stuðla að, þ.e. að veita fólki sem hingað kemur sömu þjónustu, hvort sem því er boðið hingað eftir að hafa farið í gegnum lögformlegt ferli í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og uppfyllir kröfur, eða það leitar til t.d. glæpagengja um að smygla sér til landsins, fara í hættuför sem oft verður til þess að fólk missir aleiguna og sumir jafnvel lífið. Með öðrum orðum: Að það sé sama með hvaða hætti menn koma hingað, sömu reglur um þjónustu eigi að gilda.

En hvað er verið að gera með þessu? Það er verið að búa til sterkari hvata til að fara ekki þá leið sem við höfum fram að þessu hvatt flóttamenn til að nýta sér, hina löglegu leið. Það er verið að búa til sterkari hvata til að fara frekar hættulegu leiðina, gefa frekar aleiguna til glæpamanna og láta smygla sér áfram eða koma á fölskum forsendum, villa á sér heimildir. Ef menn ímynda sér að slíkir hvatar skipti engu máli um fjölda umsókna þá eru hinir sömu ekki búnir að kynna sér þennan málaflokk að nokkru einasta leyti. Það er grundvallaratriði í þessum málum að upplýsingar um hvaða þjónusta er í boði á hverjum stað og hvaða reglur gilda dreifast mjög hratt og eru misnotaðar í sumum tilvikum af mjög hættulegum glæpahópum. Ég hef í fyrri ræðum nefnt dæmi um það og ég hef bent á að aðrar þjóðir, til að mynda Danir, hafa brugðist við því með því að auglýsa á netinu og jafnvel í dagblöðum í fjarlægum löndum hvernig reglurnar séu þar til að hvetja þá sem lesa þær auglýsingar til að fara hina lögformlegu öruggu leið en leita ekki á náðir glæpagengja.

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að hlutfallslega eru hælisumsóknir á Íslandi núna sexfalt fleiri en í Noregi og Danmörku, sexfalt fleiri. Ekki eru mörg ár síðan þær voru langfæstar á Íslandi af Norðurlöndunum. Auðvitað eru ýmsar ástæður fyrir því að hælisleitendur komu fyrr til Norðurlandanna og fyrir vikið leituðu ættingjar kannski þangað, menn leituðu á þá staði þar sem landar þeirra höfðu komið sér fyrir. En auðvitað skiptir það líka máli að Ísland er eyja og til að komast hingað þarf að fara í gegnum önnur lönd þegar menn koma frá flestum þeirra landa þaðan sem hælisleitendur koma. Það átti sér eðlilegar skýringar. Ísland tók þátt í Schengen-samstarfinu og Dyflinnar-reglugerðinni ekki hvað síst í ljósi þeirrar sérstöðu að við vorum kannski betur í stakk búin til að leggja áherslu á að stýra því sjálf hverjum væri boðið til landsins. En á nokkrum árum hefur það breyst svo mikið að umsóknirnar eru hlutfallslega orðnar sexfalt fleiri á Íslandi en í Noregi og Danmörku. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það er annars vegar afleiðing þeirra skilaboða sem hin Norðurlöndin hafa verið að senda frá sér, t.d. með lagabreytingum, breyttu regluverki, jafnvel með auglýsingum, eins og ég nefndi áðan. Hins vegar er það afleiðing þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa verið að senda frá sér og senda með þessu frumvarpi skýrar en nokkru sinni fyrr. Það lýtur að algeru grundvallaratriði í mati á því hvað sé vænlegasti áfangastaðurinn og hvort best sé að reyna að komast þangað eftir lögformlegum leiðum, öruggum leiðum, eða öðrum hættulegri og verri leiðum.

Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum hafa á síðustu misserum unnið að algerri grundvallarbreytingu á stefnu sinni og horfið frá því sem lagt er upp með af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Ríkisstjórn Íslands fer í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin. Hvaða áhrif skyldi það hafa í raunheimum þegar sú staða er þegar komin upp að hælisumsóknir á Íslandi eru sexfalt fleiri hlutfallslega en í Danmörku og Noregi? Hvaða áhrif skyldi það hafa þegar íslenska ríkisstjórnin innleiðir stefnu sem fer í þveröfuga átt með tilliti til stefnu hinna Norðurlandanna sem öll miða að því að ná betri stjórn á því hverjir koma til landsins að því marki að forsætisráðherra Danmerkur hefur sagt að markmiðið sé að enginn hælisleitandi komi til Danmerkur? Það kann að hljóma hranalega, en danski forsætisráðherrann sagði ekki að Danir myndu ekki taka á móti flóttamönnum, aldeilis ekki, heldur að áherslan ætti að vera á að Danir stýrðu því sjálfir hverjum væri boðið til landsins. Með öðrum orðum er öll áhersla á það núna í Danmörku og víðar að hvetja menn til að nýta öruggu löglegu leiðina og reyna að búa til hindranir gagnvart því að menn nýti aðrar hættulegri, jafnvel ólöglegar, aðferðir. Það er gert, eins og stjórnmálamenn á Norðurlöndum útskýra og þar með talið danski forsætisráðherrann, ekki hvað síst til að lönd þeirra séu ekki notuð af stórhættulegum glæpagengjum til að taka aleiguna af fólki og senda það í hættuför. Hér kynnir íslenska ríkisstjórnin þveröfuga leið, hvata fyrir hættulegu leiðina, á meðan hin Norðurlöndin gera hvað þau geta til að útskýra fyrir fólki að það verði að fara hina lögformlegu leið og þannig eigi menn helst von um að fá hæli sem flóttamenn.

Aðstoð við flóttamenn hefur verið góð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og við höfum haft það að markmiði, ég held að lengi hafi verið mikil samstaða um það í íslenskum stjórnmálum, að geta tekið vel á móti þeim flóttamönnum sem við bjóðum hingað. En hvað verður um möguleika okkar á því að taka sem best á móti sem flestum þeirra sem við bjóðum hingað ef við höfum ekki lengur stjórn á aðstæðunum og því hverjir koma, á hvaða forsendum og hvernig? Þá missum við þá stjórn sem danska ríkisstjórnin telur að sé alger forsenda þess að hægt sé að taka vel á móti fólki, hjálpa því að aðlagast samfélaginu og hjálpa samfélaginu að þróast eðlilega og viðhalda öflugu velferðarkerfi. Augljóslega mun það hafa áhrif. Það vekur mikla furðu að menn leyfi sér að líta algjörlega fram hjá því við umræðu um málið að það hafi nokkur áhrif yfir höfuð og að þeir hafi hvorki gert eina einustu tilraun til að meta hversu mikil fjölgunin verði, hvort það verði þá tífalt fleiri umsækjendur á Íslandi en í Danmörku, eða fimmtánfalt, tuttugufalt, né gert eina einustu tilraun til að meta kostnaðinn. Auðvitað kostar þetta allt peninga og fjárráðin eru takmörkuð. Í þessum málaflokki ekki hvað síst, þar sem líf, heilsa og velferð fólks er undir, hljótum við að vilja nýta það fjármagn sem er til ráðstöfunar eins vel og kostur er og hjálpa því fólki sem best sem mest þarf á hjálpinni að halda. Í staðinn koma menn hingað og tala fyrir þessu máli og segja: Það er bara annað mál hvaða áhrif þetta hefur, það heyrir undir annan ráðherra, væntanlega, hvaða áhrif verða af málinu sem við ætlumst til að þið samþykkið hér, hvort fleiri muni nýta sér þjónustuna og hvort það muni auka kostnað. Það er bara annarra að skoða það.

Það myndi bjóða upp á mikil tækifæri fyrir ráðherra ef þeir færu almennt að nýta sér þann möguleika að leggja fram mál og útskýra að það séu góð mál og snúist um að gera góða hluti. Hvað þau kosti? Það sé ekki á þeirra verksviði, það sé annarra ráðherra, þannig að ekki megi tala um það í tengslum við málið sem verið sé að ræða núna. Til að mynda væri hægt að leggja fram frumvarp til að bæta hag öryrkja. Sami ráðherra gæti gert það og enginn myndi halda því fram að það væri ekki aðkallandi og mikilvægt að tryggja öryrkjum sem best kjör. Af hverju gerir ráðherrann það þá ekki í þeim málaflokki og segir svo bara: Það hvernig þetta er fjármagnað er allt annað mál fyrir annan ráðherra?

Auðvitað hljótum við að líta á þetta stóra mál í heild og á heildaráhrif þess því að þau yrðu mikil. Það versta er að þau myndu gera það miklu erfiðara fyrir okkur að hjálpa eins mörgum og við gætum, hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálpinni að halda. Það inniheldur svo neikvæða hvata í stað jákvæðra hvata sem gera mönnum betur kleift að hjálpa eins og það sem hin Norðurlöndin eru að innleiða.

Ég mun í seinni ræðu fjalla aðeins nánar um stefnuna annars staðar á Norðurlöndum og ekki hvað síst mikla tímamótastefnu danskra jafnaðarmanna. Ég veit ekki hvaða nöfnum hv. framsögumaður málsins myndi kalla forsætisráðherra Danmerkur miðað við þær yfirlýsingar sem hv. þingmaður hafði í upphafi umræðunnar um að öll gagnrýni á leið íslensku ríkisstjórnarinnar væri til marks um kynþáttahyggju. Ég er dálítið hræddur um að ef samræmi ætti að vera í þeirri yfirlýsingagleði hv. þingmanns þyrfti hæstv. forseti að grípa inn í þegar þar að kemur. En við vonum hins vegar að menn hverfi frá slíkum gífuryrðum og ræði frekar innihald málsins.

Það er mikilvægt að ræða innihald málsins. Þetta er málaflokkur sem er gríðarlega stór, erfiður viðfangs, líf og heilsa fólks er undir. Þetta er líka málaflokkur sem mun bara stækka því að ef fram heldur sem horfir og allar líkur eru á mun flóttamönnum og hælisumsóknum, sem ekki eru endilega alltaf sami hluturinn, fjölga til mikilla muna á komandi árum og jafnvel áratugum. Þess heldur þurfum við að vera með stefnu sem er til þess fallin að takast á við ástandið nú, jafnvel fyrirsjáanlega þróun, og gera sem mest gagn í stað þess að nýta þennan málaflokk, eins og er orðið allt of títt meðal þeirra sem stundum eru kallaðir góða fólkið eða „ybbarnir“, til að lýsa því yfir að viðkomandi sé góður en allir sem eru ósammála séu vondir. Ekki er hægt að nálgast svona mikilvægt viðfangsefni á þann hátt.