151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Við ræðum hér tiltölulega lítið og einfalt mál sem varðar það að við viljum bæta og samræma móttöku flóttafólks, gera það með því að styrkja það hlutverk sem Fjölmenningarsetri hefur verið falið. Þetta er vinna sem á rætur sínar, ég hygg að ég fari rétt með, í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem var samþykkt á Alþingi haustið 2016. Málið hefur verið flutt hér áður, náði ekki fram að ganga og nú gerum við aðra og vonandi síðustu tilraun til þess. Ég hef í sjálfu sér engu við ágæta framsögu hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur að bæta en mig langaði til að koma hingað upp í stutta ræðu af tveimur ástæðum.

Annars vegar varð mér einfaldlega litið yfir mælendalistann og fylgdist með í kjölfarið og heyrði þann tón sem þingmenn Miðflokksins slá hér í umræðunni. Mér finnst vont að ásýndin sé sú að þar sé um að ræða rödd þingheims vegna þess að því fer fjarri. Ég hef hlustað af athygli á þingmenn Miðflokksins og ég átta mig á því að þeir eru alls ekki að ræða þetta mál í sjálfu sér. Þeir eru að ræða þá stefnu sína að hingað eigi ekki að koma nema sérlega handvalið fólk, og ég hef svo sem ekki náð utan um hvernig það á að vera handvalið, sem þeim er þóknanlegt. Þeir nota náttúrlega tækifærið til að koma þeim sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er gott og blessað en ég vil gjarnan koma hingað með gagnskilaboð.

Við Íslendingar erum rík þjóð og við erum rík á mjög margan hátt og við erum rík af mörgum ástæðum. Sá auður sem við búum yfir vegna þess fjölda innflytjenda sem hingað hefur komið, aðlagast íslensku samfélagi og lagt sitt af mörkum með okkur hinum sem fyrir eru til að bæta, styrkja og fegra samfélagið okkar, verður sannarlega ekki bara mældur í krónum og aurum. En það er hægt að leggja slíka mælikvarða á ef við viljum það, enda hefur það margoft komið fram. Það eru heilu atvinnugreinarnar á Íslandi sem eiga mikið undir innflytjendum og líka heilu byggðarlögin.

Ég fagna þessu máli og treysti því að það fái framgöngu að þessu sinni vegna þess að það er á margan hátt svo mikilvægt að við tökum vel á móti því fólki sem hingað kemur, auðveldum því að verða þeir þátttakendur í íslensku samfélagi sem það kýs að vera. Við eigum svo margt undir því að styrkja okkur sem það opna og frjálsa samfélag sem við erum orðin og getum betur orðið.

Mig langar hins vegar líka að nefna eitt og ég kem hingað upp og ræði það í tengslum við hinar ýmsu skerðingar sem stjórnvöld og við, löggjafinn, höfum sett á íslenskt samfélag í skjóli sóttvarna. Því miður, og það er ekki fallegur blettur á okkur, hefur borið á því að þau skilaboð um þær skerðingar og hegðunarreglur sem okkur eru settar hafa ekki skilað sér til innflytjenda sem ekki eru fullkomlega mæltir á íslenska tungu eða vel tengdir inn í stjórnsýsluna eða samfélagið almennt. Það hefur borið á því að þessi skilaboð hafi ekki náð á réttan hátt til þessa fólks, til þessara samborgara okkar. Það er miður. Ég segi fyrir mig: Ég er vel tengd, ég er vel heima í tungumálinu okkar og mér finnst þetta oft flókið. Ég get ekki þulið upp allar þær reglur sem gilda t.d. núna um það hvernig ég eigi að hegða mér nema í þessu dagsdaglega stússi sem ég er vonandi með á hreinu. Við verðum að gera betur og við þurfum að koma skilaboðunum um þessi mál á framfæri. Það er ágætur prófsteinn á hversu opið samfélag við erum, hvort við erum að svara skyldum okkar sem samfélag til allra íbúa. Þetta tiltekna mál mun bæta um betur fyrir hóp innflytjenda en við getum sem samfélag tekið þetta lengra og það gengur náttúrlega ekki að við bjóðum fólk hingað velkomið, fögnum jafnvel og stólum á hóp innflytjenda, ef við ætlum ekki að tryggja að það fái þær upplýsingar sem þörf krefur.

Mig langaði fyrst og fremst að koma þessu á framfæri. Þetta er ágætistækifæri til þess. Ég veit að þetta tiltekna mál er þannig vaxið að því er fyrst og fremst ætlað að veita Fjölmenningarsetri víðtækara hlutverk til ráðgjafar og samræmdrar móttöku flóttafólks. En mér finnst hins vegar samhliða því góða markmiði kjörið tækifæri til að velta því upp hvernig við nálgumst þetta í stóru myndinni með því að útfæra hlutverk þessa seturs eða fela einhverjum aðilum þetta, tryggja túlkunarþjónustu. Ég nefni sem dæmi að í þýðingu hafi grunnatriði misfarist, eins og æskilegt versus nauðsynlegt. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig það er að lenda í því að ætla sér að fara eftir tilteknum reglum en fá rangar upplýsingar. Við vitum öll að töluverður munur er á því, þegar verið er að skerða frelsi okkar, hvort það er æskilegt að við hegðum okkur á einhvern hátt eða nauðsynlegt. Þetta eru atriði sem skipta máli.

Að öðru leyti treysti ég því að þetta mál verði ekki látið líða fyrir það að hér séu mismunandi skoðanir á útlendingamálum almennt, hvernig við ætlum að takast á við þau í framtíðinni. Þetta mál stendur og fellur með sjálfu sér. Þetta er mikilvægt mál og er lykilatriði fyrir það fólk sem við erum að bjóða velkomið hingað til lands.