151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:45]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Og já, ég er sammála því að vænlegast sé að ræða þessi mál af hófsemd og yfirvegun en ekki í upphrópunum og látum. Spurt er hvort ég sé sammála stefnu danska jafnaðarmannaflokksins í málefnum innflytjenda og flóttafólks og ég vil bara lýsa því yfir að ég er það ekki. Ég er ekki sammála stefnu þeirra í þeim málaflokki enda hafa þau líka stigið skref sem eru algjörlega á skjön við stefnu annarra stjórnvalda í málefnum flóttafólks og innflytjenda og hafa nánast engu breytt frá stefnu danska þjóðarflokksins sem áður sat í ríkisstjórn í þessum málaflokki, því miður. Og það er miður. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði svo mikil ítök að ég hefði áhrif á dönsk stjórnmál og dönsku ríkisstjórnina, að ég gæti talið henni hughvarf og sagt henni að hún væri á algjörum villigötum. Ég hef þó komið athugasemdum á framfæri við danska þingmenn í því alþjóðlega starfi sem ég sinni, ég hef gert það, og veit ekki betur en að formaður Samfylkingarinnar hafi sömuleiðis gert það árið 2018.

Hina spurninguna verð ég eiginlega að fá að heyra aftur, herra forseti. Ég náði henni ekki alveg og bið hv. þingmann um að endurtaka hana í seinna andsvari.