151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að hafa hér hratt á hæli því að það er auðvitað margt sem þarf að ræða við hv. þingmann. Það sem ég spurði út í var: Er með öllu útilokað að hún geti stutt nokkurt af þeim markmiðum sem danska ríkisstjórnin hefur sett sér? Það er í fyrsta lagi að þeir ráði því hverjir komi, að þeir verji takmörkuðu fé með árangursríkari hætti, geti hjálpað fleirum með því að verja fénu á heimaslóð eða því sem næst og með hjálp um farveg hins alþjóðlega þróunarsamstarfs.

Ég vil síðan vekja athygli hv. þingmanns á nýju framtaki sem hófst í mars, held ég, í Danmörku. Þar er ráðist gegn því sem þeir kalla gettó og orðið gettó kom inn í dönsk lög 2010. Þetta orð þykir ekki öllum viðfelldið, það hefur neikvæðar tengingar og þeir hafa margir hverjir farið að tala um „parallelsamfund“ sem við getum með hraði kallað hliðarsamfélög, eitthvað svoleiðis. Því er lýst í þessum skjölum á dönskum stjórnmálavettvangi, samkomulagi milli flokka sem nú eru undir forystu danskra jafnaðarmanna, að eyða beri þessum gettóum fyrir árið 2030, þar á meðal með niðurrifi húsa og annað slíkt. Þeir segja sem svo að í þessum gettóum séu dönsk gildi ekki virt, og er þá sérstaklega kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna virt vettergis. Það segir okkur í einni setningu að alvarlegir misbrestir hafa orðið í því sem stundum er kallað aðlögun. Ég vil bara leyfa mér að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hefur hún ekki áhyggjur af þessu og er þetta einhver þáttur í stefnu danskra stjórnvalda sem hún gæti mögulega lýst yfir stuðningi við?