151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það eru margar áhugaverðar ræðurnar sem hafa verið fluttar í þessari umræðu í dag og kem ég hér í mína fyrstu. Það er auðvitað þannig að öll sú lagasetning sem við vinnum að hér á Alþingi hefur einhver afleidd áhrif. Það er næstum því sama hvaða frumvarp við erum að eiga við, einhver afleidd áhrif verða af þeirri lagasetningu önnur en akkúrat það sem stendur í lagatextanum. En hér hefur tekið sér bólfestu, ég veit ekki hvað skal kalla það, einhvers lags bókstafstrú í þessum efnum og þingmenn koma upp hver á fætur öðrum og segja með sínu lagi, hver á fætur öðrum: Það er ekkert verið að fjalla um þetta, það er ekkert verið að fjalla um hitt, þið eruð að misskilja þetta. Þetta mál fjallar um allt annað en þið eruð að gagnrýna. Ég nefni með fullri virðingu hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson sem hefur komið upp í ræðu og nokkur andsvör. Hvað veldur því að hv. þingmaður virðist ekki ná utan um þetta samhengi hlutanna og afleiðingar lagasetningar á þætti sem eru ekki skrifaðir beint inn í það tiltekna frumvarp sem til umræðu er? Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á hvað veldur nema ef vera skyldi að það hentaði málflutningnum bara betur að halda þessu fram. Það er ekki fyllilega sanngjarnt í rökræðu um mikilvæg mál því að það stenst enga skynsemisskoðun að halda því fram að þau skilaboð — og nú er kannski rétt, áður en ég held áfram, að segja það svona á almennum nótum að við eigum að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem við tökum á móti, styðja við það að þeir aðlagist samfélaginu sem mest og best og verði sem virkastir þátttakendur í því. En við eigum ekki að forma kerfið með þeim hætti að hingað berist straumur tilhæfulausra umsókna um alþjóðlega vernd eins og við höfum séð koma fram af og til. Með því erum við ekki bara að draga úr getu okkar til að styðja við og hjálpa við aðlögun þeirra sem hingað koma, í gegnum þær leiðir sem niðurstaða hefur náðst um að hafa opnar, heldur erum við líka beinlínis að fara illa með opinbert fé. Ef við viljum nota þá fjármuni sem tilhæfulausar umsóknir kosta þá er miklu betra og ærlegra af okkur þingmönnum að segja: Þá skulum við reyna að nota þessa fjármuni í að gera betur fyrir fleiri. Það gerum við ekki með því að viðhalda núverandi fyrirkomulagi þar sem biðleikir eru spilaðir út í hið óendanlega og þar fram eftir götum. Við þekkjum allar þær sögur. Ég veit að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson veit alveg til hvers ég er að vísa í þessu samhengi. Þetta skapar alveg ofboðslega sóun og ég get alveg sagt fyrir mig: Mér finnst engin mennska í því að verið sé að vísa fólki úr landi sem hefur verið hér árum saman. En þá þarf líka að skoða hvers vegna sú staða er uppi. Er sú staða uppi vegna tilhæfulausra umsókna? Er sú staða uppi vegna þess að það hefur verið leitast við að nýta alla þá tafaleiki í kerfinu sem fært er að nota? Eða er sú staða uppi af einhverjum málefnalegum ástæðum? Í öllu falli er það þannig að kerfið eins og það er núna felur í sér gríðarlega mikla sóun og ég held að við getum gert miklu betur fyrir þá sem eru að koma hér inn, til að mynda í gegnum kvótaflóttamannakerfið, stutt við aðlögun og þar fram eftir götunum, en við erum að gera í dag ef okkur tekst að einfalda kerfið og gera það meira straumlínulaga, mér finnst nú leiðinlegt að nota það orð í þessu samhengi, en ég vona að þetta skiljist, að þeir sem við bjóðum hingað og tökum við njóti stuðnings með þeim ráðum sem til eru en það fari ekki þessi ofboðslega orka í annað.

Við vitum alveg um allt tafsið sem er í gangi hér daginn út og daginn inn. Það er miður að flest mál sem rata í fréttir eru tilkomin vegna þess að dregist hefur úr hófi að viðkomandi fari til baka til síns upprunalands eð hvað það er. Hver sem orsökin er hverju sinni þá er það þannig að öll fjölmiðlaumfjöllun hverfist um slík mál. Ég held að það væri miklu áhugaverðara að sjá meira af fréttum vestan af fjörðum þar sem gríðarlega mikil og góð samfélög hafa myndast, hvort sem það hefur verið fólk sem hefur komið hingað til að vinna, sinnt störfum sínum vel og orðið góðir og gegnir íslenskir borgarar, eða hópar sem hafa komið í gegnum kvótaflóttamannakerfið eða annað sambærilegt. Það eru ekki fluttar margar fréttir af þeim hópum en þar er sem betur fer margt sem gengur vel. En við erum einhvern veginn alltaf að slást á þessum vígvöllum, sem er heldur ekki skemmtilegt orð í þessu samhengi, en við erum einhvern veginn alltaf í umræðunni að slást á þessum jaðri sem mér er til efs að hinn almenni borgari vilji endilega að öll þessi umræða hverfist um. Það skiptir máli hvaða skilaboð við erum að senda út. Í framsögu hæstv. félagsmálaráðherra, sem var flutt 16. febrúar sl., segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda hefur verið unnið að samræmdri móttöku flóttafólks, óháð því hvort það kemur á eigin vegum, í gegnum alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða með samræmdri móttöku flóttafólks.“

Ég er þeirrar skoðunar að ef við sendum þau skilaboð út að þetta séu hin nýju viðmið á Íslandi muni það valda verulegri fjölgun hælisumsókna og óska um alþjóðlega vernd. Og þegar við horfum á tölurnar þá liggur það fyrir í opinberum gögnum að fjöldi umsókna hér á landi er miðað við höfðatölu margfaldur á við það sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Mig minnir að fjöldinn sé sexfaldur hér á landi, þá er ég bara með nýjustu tölur sem ég hef séð í huga, miðað við það sem er í Noregi. Við sjáum með hvaða hætti mál eru að þróast í Danmörku og víða annars staðar í samanburðarlöndum okkar. Ég bara get ekki lagt nógu þunga áherslu á að þetta snýst allt um skilaboðin, frumvarp sem er samþykkt sem hefur áhrif á ákveðna þætti hefur afleidd áhrif. Það hefur þau áhrif að Ísland verður eftirsóknarverðara í þessu samhengi. Þau áhrif koma fram í auknum fjölda umsókna. Það getur ekkert annað verið. Eins og einhvern tíma var sagt í hálfkæringi: Þetta ágæta fólk er örugglega ekki að koma hingað út af veðrinu þó að það sé gott í dag. Það bara getur ekki verið. Það er eitthvað annað.

Auðvitað er þeim sem koma hingað með tilhæfulausar umsóknir þetta ljóst þegar þeir leggja upp í ferðalagið. Ísland er ekki fyrsti viðkomustaður. Það er eitthvað í regluverkinu hér sem veldur því að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi er hlufallslega sexfaldur samanborið við það sem er í Noregi og hlutfallið er hærra hér en alls staðar annars staðar á Norðurlöndum, Svíþjóð þar með talin. Ég er ekki með þessar tölur hér með mér, ég bara man töluna í samanburði við Noreg, en það er eitthvað sem veldur þessu. Það er furðulegt að menn ætli að halda því fram í þessari umræðu að frumvarp eins og þetta hafi engar afleiddar afleiðingar. Það er auðvitað alger furða að sjá í 6. lið greinargerðarinnar hvernig kostnaðarmat frumvarpsins lítur út. Þar er horft eins þröngt á málið og nokkur kostur er. Það er horft svo þröngt á það að ég trúi því varla að nokkur hafi látið þennan texta frá sér án þess að skammast sín svolítið. Auðvitað blasa afleiddu áhrifin við.

Tökum Danmörku aftur sem dæmi. Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, hefur sagt að hún sjái fyrir sér að það verði engar umsóknir um alþjóðlega vernd sem komi til Danmerkur, þangað komi fólk í gegnum hið formlega kerfi. Ég veit ekki hvað það er kallað þar en það er það kerfi sem við myndum kalla kvótaflóttamannakerfi hér heima. Þetta þykir ekkert óeðlilegt þar og það eru meira að segja birtar auglýsingar í erlendum miðlum, samfélagsmiðlum geri ég ráð fyrir, þar sem línur eru lagðar hvað það varðar að hvorki sé innganga einföld né að þetta verði eintómur dans á rósum eftir að inn er komið. Það hefur meira að segja verið gengið svo langt að flagga því að verðmæti yrðu gerð upptæk til að standa undir þeim kostnaði sem af tilhæfulausum umsóknum hljótast. Þetta þykir ekki galin nálgun þar. Þess vegna velti ég fyrir mér: Hvað er það sem orsakar það að hér á Íslandi, þegar það virðist blasa við nágrönnum okkar í Skandinavíu að ákvarðanir hafa afleidd áhrif, virðast ýmsir hv. þingmenn ekki sjá það. Ég sé hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson hér í salnum djúpt hugsi. Ég veitti því athygli að hann hefur óskað eftir því að fara í andsvar. Þó að ég sé auðvitað ekki í neinni stöðu til þess að gera kröfu um svör væri áhugavert, af því að ég veit að hv. þingmaður mun hafa tíma til þess, að hv. þingmaður færi stuttlega inn á það hvað ætti að skýra það að skilaboð sem þessi, sem augljóslega felast í frumvarpinu, hafi ekki sambærileg áhrif hér á Íslandi og aðrar Norðurlandaþjóðir virðast telja að skilaboð hafi. Það væri auðvitað ekkert verið að senda þessi skilaboð frá dönskum og norskum stjórnvöldum ef menn þar í landi teldu þau ekki hafa áhrif í þá átt að draga úr umsóknum um alþjóðlega vernd. Ég ítreka að ég hef engan rétt til að kalla eftir svona sjónarmiðum en af því að ég hef trú á að þingmaðurinn hafi tíma til að koma inn á þetta í andsvari sínu væri það áhugavert bara umræðunnar vegna. Ég gat ekki séð að þingmaður væri á mælendaskrá þegar ég fór í pontu, ég gat hlustað á ræðu hv. þingmanns en var ekki í salnum.

Að þessu sögðu þá er auðvitað hárrétt að málið sem slíkt, þegar þröngt er á það litið, tekur fyrst og fremst til þriggja þátta, eins og kemur fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi til þess að félagsmálaráðuneytið geri samninga við móttökusveitarfélög um aukna aðstoð og þjónustu við flóttafólk sem felist m.a. í að skipa málstjóra sem hafi það hlutverk að tryggja samfellu í þjónustu sem byggir á einstaklingsmiðaðri áætlun. Í öðru lagi að Vinnumálastofnun fái aukið hlutverk og annist samfélagsfræðslu og íslenskukennslu fyrir flóttafólk, veiti náms- og starfsráðgjöf auk aðstoðar við atvinnuleit og aðra virkni. Og í þriðja lagi að Fjölmenningarsetur fái aukið hlutverk sem felst í því að tengja saman flóttafólk og móttökusveitarfélög sem hafa gert samning við félagsmálaráðuneytið. Þetta eru allt prýðisfyrirheit en ég er þeirrar skoðunar að þessum hópum einstaklinga sem koma inn undir þessa regnhlíf ættum við að bjóða hingað til landsins í gegnum kvótaflóttamannakerfið þar sem tekst að halda vel utan um fólk, við höfum þá svigrúm til að taka vel á móti því. Við eigum að taka vel á móti þeim sem við tökum á móti. Allur fréttaflutningur, hver sem geymslustaðurinn er, ef við notum það leiðinlega hugtak, er af einstaklingum sem eru að koma á eigin vegum og áhöld eru um hversu réttmæt umsókn viðkomandi hefur verið.

Það hefur verið unnið frábært starf hjá Fjölmenningarsetri á Ísafirði. Nú er verið að útvíkka og bæta við starfsstöð og það er hið besta mál. Ég talaði fyrir því þegar sú ákvörðun var tekin og lagði þunga áherslu á að meginstarfsstöðin yrði áfram þar sem hún hefur verið frá stofnun Fjölmenningarseturs, þ.e. á Ísafirði, að sú kjarnastarfsemi yrði þar áfram. Sveitarfélögin munu væntanlega taka við meginþunga þess aukna umfangs sem með einum eða öðrum hætti verður af þessari lagasetningu. Eins og kemur fram í þessum þremur meginmarkmiðum snýst þetta með einum eða öðrum hætti um að sveitarfélögin taki til sín aukna ábyrgð og í miklu meira umfangi en þetta hefur valdið vandræðum hingað til. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með hversu snúnir þessir samningar hafa verið og sveitarfélög hafa talið þá knappa hvað fjárhagsstuðning og annað varðar. Í ræðu hæstv. ráðherra segir beinlínis að í fyrsta lagi geri félagsmálaráðuneytið samninga við móttökusveitarfélög um aukna aðstoð og þjónustu við flóttafólk. Í þessu samhengi hræða sporin því að þeir þjónustusamningar sem gerðir hafa verið — ég man í augnablikinu eftir samningum við Reykjanesbæ, Hafnarfjörð og Reykjavík. Það má vera að þeir séu fleiri. Ef það er skilningur þingmanna að þeir hafi gengið á þann veg sem sveitarfélögin höfðu vonir um, þegar þau tóku þátt í því samstarfi, þá blasir við að svo er ekki. Ég held að við ættum fyrst að reyna að koma þeim málum sem snúa að kvótaflóttamannakerfinu í gott stand og gera það vel, taka vel á móti þeim sem við tökum á móti en ekki færast um of í fang. Staðreyndin er auðvitað sú að við getum ekki gert allt fyrir alla. (Forseti hringir.) En þetta aukna umfang og þessi afleiddu áhrif af umræddu frumvarpi ættu að blasa við öllum. Annars neita menn bara að horfast í augu við staðreyndir.