151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður stal af mér spurningunni. Hann spurði mig hérna í ræðu og ég ætla að svara honum. En svar mitt er spurning, akkúrat öndverð spurning. Hv. þingmaður spurði nefnilega hvað í þessu frumvarpi væri ekki til þess fallið að gefa þau skilaboð sem t.d. Danmörk sendir og er að reyna að hindra, að það sé eftirsóknarvert að koma til landsins, ef ég skildi spurningu hv. þingmanns rétt. Ég vildi einmitt spyrja: Hvað í ósköpunum í þessu frumvarpi telur hv. þingmaður að sé rosalega tælandi fyrir hælisleitendur? Ég sé það bara ekki. Ég er búinn að fara efnislega yfir frumvarpið og þetta eru fjórar greinar, þ.e. ef við teljum með grein sem segir að lögin öðlist gildi. Annars eru þetta þrjár greinar. Þetta er fljótlesið: 1 gr. fjallar um að fella brott upplýsingaskyldu fyrir fyrirtæki og fleira. 2. gr. fjallar um að Fjölmenningarsetur skuli veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku flóttafólks o.s.frv.

Virðulegur forseti. Er það kannski þannig að hælisleitandi, segjum frá Georgíu, sem fólk vill af einhverjum ástæðum ekki fá hingað, lesi þessi lög og hugsi með sér: Humm, það koma faglegar leiðbeiningar frá þessu Fjölmenningarsetri, mikið er þetta nú heillandi land. Eða ætli það sé það að fólk geti þá komist í íslenskukennslu eða fengið leiðsögn um það eða leiðsögn um hvernig það eigi að leita að vinnu eða koma sér fyrir, eitthvað því um líkt? Hvað er það í þessu frumvarpi í víðum eða þröngum skilningi sem hv. þingmaður telur að geri Ísland sérstaklega tælandi? Þetta frumvarp snýst um það eitt að gera fólki auðveldara að aðlagast íslensku samfélagi.

Þá kemur hin spurningin sem ég vildi spyrja hv. þingmann, einfaldlega: Aðhyllist hann það yfir höfuð að við leggjum okkar af mörkum til að auðvelda fólki að aðlagast íslensku samfélagi? Vegna þess að þetta frumvarp snýst bara um það. Þessi samræmda móttaka flóttafólks snýst bara um það. Ef það er of tælandi til þess að við getum sett það í lög, þá segir það sig sjálft að það er of tælandi að hjálpa fólki að aðlagast íslensku samfélagi. Mér finnst þetta vera af og á á sama tíma hjá hv. þingmanni, en ég vænti þess að hann geti útskýrt það fyrir mér.