151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ég væri eðlilegur Sjálfstæðismaður. Algengasta spurningin sem ég fæ er: Ertu eðlilegur? Ég held að ég sé nefnilega mjög eðlilegur í grunninn, og sérstaklega eðlilegur Sjálfstæðismaður.

Hvað mun Sjálfstæðisflokkurinn gera? Ég get bara ekki svarað því, hv. þingmaður. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur nú reynt að koma frumvörpum í gegn til að hraða aðeins afgreiðslu þessara mála, gera þetta kerfi skilvirkara, en alltaf lenti Sjálfstæðisflokkurinn á vegg og hefur alltaf gert þegar kemur að þessum málum vegna þess að það er einfaldlega þannig að meiri hluti þingsins er með slíka manngæsku og lítur á að öll framför og tilraunir til að bæta kerfið séu aðför að útlendingum. Þá komumst við aldrei áfram, því miður, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þetta er alltaf heit kartafla. Þetta er auðvitað vandmeðfarið. Ég skil það. En ef einhver vill reyna t.d. að taka hælisleitendakerfið út með þeim hætti sem er núna og segja að við tökum þetta bara í gegnum flóttamannakerfið, þá rísa allir upp á afturfæturna. Það er bara skortur á mannúð, manngæsku, þá er maður bara vondur við útlendinga. Ég er bara alls ekkert vondur við útlendinga, mér finnst þeir algjörlega frábærir, satt best að segja, og mjög nytsamlegir fyrir íslenskt samfélag. Þetta snýst ekki um það.