151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er án nokkurs vafa verkefnið sem fyrir okkur liggur að fara í heildarendurskoðun í þessum efnum. Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að koma inn á það áðan að við yrðum að leyfa okkur að taka umræðuna um hælisleitendakerfið í víðara samhengi heldur en út frá þeim þröngu sjónarmiðum sem komu fram akkúrat í þessu máli. Gagnrýnin sem hefur kannski mest dunið á þingmönnum Miðflokksins hér í dag hefur verið vegna þess að verið sé að ræða mál í víðara samhengi og afleidda þætti. Í því samhengi kom hv. þingmaður inn á að líkur væru á því að á endanum tækjum við umræðuna, það yrði sem sagt pólitískt leyfilegt að ræða þessi mál þegar það væri raunverulega orðið of seint. Ég velti fyrir mér, ef ég skildi orð hv. þingmanns rétt: Var þingmaðurinn fulltrúi í þessari þverpólitísku nefnd? (Gripið fram í.) Nú fyrirgefið, þá hef ég misskilið það.

Spurningin er alla vega: Hverja telur hv. þingmaður líklegustu leiðina til að hægt verði að ná þessari umræðu upp á yfirborðið? Við sjáum bara furðuræðu framsögumanns nefndarálits í þessu máli í gær þar sem í framsögu fyrir nefndaráliti var farið að flagga meldingum um rasisma og annað slíkt. Það undirstrikar hversu erfitt það er að fá þessa umræðu á einhverjum balanseruðum skynsamlegum nótum til að hægt sé að fara í gegnum hana þannig að eitthvert gagn verði af.