151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Áður en ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið, í þessari annarri ræðu minni, langar mig að ítreka þakkir til hv. þm. Brynjars Níelssonar fyrir einstaklega góða ræðu og vil nefna aðeins atriði sem hann kom inn á, þ.e. lögin um útlendinga frá 2016. Ég hafði hugsað mér að ræða þetta mál síðar í þessari umræðu en það er ágætt að nefna það núna í beinu framhaldi. Það var ekki nóg með að þetta væri þverpólitísk vinna — og ég tek undir með hv. þingmanni að það er alltaf til þess fallið að valda manni áhyggjum þegar mál eru kynnt fyrst og fremst á þann hátt, innihaldið skiptir ekki máli, þetta var þverpólitískt — heldur fól þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins reyndar þingmanni stjórnarandstöðunnar að leiða vinnuna. Vinnan fór öll fram meira og minna, held ég, á forsendum stjórnarandstöðunnar. Mér var mjög í nöp við þetta í ljósi þeirrar stöðu sem ég var í þá og ræddi oft við ráðherrann og reyndi að vinda ofan af þessari vinnu, en var alltaf sagt að ég skyldi bara sjá, það kæmi eitthvað gott út úr þessu. Svo kom náttúrlega ekkert gott út úr þessu. Ég get fullyrt það að ég hefði aldrei hleypt þessu máli út úr ríkisstjórn, aldrei, og aldrei stutt það. Ég studdi það ekki.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér í framhaldi af umræðu um þetta og ágætum andsvörum hv. þm. Brynjars Níelssonar þar sem rætt var um dugleysi íslenskra stjórnmálamanna í þessum málum, sem er vissulega alveg rétt í öllum flokkum nema einum sem í þessu eins og svo mörgu öðru virðist skera sig úr núna gagnvart þessum nýaldarstjórnmálum sem tröllríða öllu, er að mér fannst gæta óhóflegrar bjartsýni hjá hv. þingmanni. Auðvitað eiga menn alltaf að vera jákvæðir og bjartsýnir. Ég veit að hv. þingmaður er kannski ekki frægur fyrir það en það er alltaf einhvers staðar þarna undir niðri og kom núna aðeins upp á yfirborðið þegar hann taldi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði innst inni löngun til að breyta þessum málum. Hann hefði bara ekki valið sér rétta samstarfsflokka og ekki náð að koma málum í gegn o.s.frv. En þá bendi ég á móti á að mörg af þessum málum eru drifin áfram af Sjálfstæðisflokknum og þingmönnum hans eða ráðherrum eins og dæmið sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi áðan. Og það er ekki bara í þessum málum. Það er í mörgum þessara nýaldarstjórnmála að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að reyna að sanna sig í keppninni um að ganga lengst í þeim efnum, í sumum tilvikum jafnvel orðinn leiðandi, nýi Sjálfstæðisflokkurinn, nýhaldið. Nýhaldið er á vissum sviðum orðið leiðandi í nýaldarstjórnmálunum. Þess vegna segi ég nú bara í framhaldi af svörum hv. þingmanns og von hans um að enn þá blundi þessi löngun undir niðri hjá Sjálfstæðisflokknum: Sjáum bara hvernig fer með þetta mál. Ég tek eftir því að það hafi ekki fleiri hv. þingmenn flokksins kosið að tjá sig um það en hv. þm. Brynjar Níelsson og ég ítreka þakkir til hans fyrir að mæta hér í umræðuna, málefnalega eins og jafnan, og að flytja frábæra ræðu.

Þá aftur að þræðinum úr fyrri ræðu minni og það kemur aðeins inn á það sem við erum að ræða núna, hvernig menn nálgast svona mál. Það sem vakti sérstaka athygli mína, eitt af því, í hreint dæmalausri ræðu framsögumanns málsins, hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, var að þingmaðurinn sagði að hann teldi að málið myndi ekki gagnast þeim sem væru á móti því í kosningum. Ástæðan fyrir því að þetta vakti sérstaka athygli mína er að ég hef heyrt þetta nokkrum sinnum áður, sérstaklega frá þingmönnum Framsóknarflokksins í umræðu um þetta mál og reyndar önnur mál líka. Þeir koma hér upp og segja, ef einhver er að andmæla einhverju sem þeir leggja fram: Þetta mun ekki gagnast ykkur í fylgi eða í kosningum. Kannski kemur það ekki svo mikið á óvart því að sá flokkur hefur orðið algerlega viðskila við allt annað en að reyna að bjarga sér alltaf í næstu kosningum. Það hvarflar ekki að þeim að einhverjir gætu haft skoðanir á málum vegna þess að þeir trúa raunverulega á það, af því að þeir telja að eitthvað sé mikilvægt og að stefnan skipti máli. Nei, ef einhver andmælir þá eru þeir fyrst og fremst að velta fyrir sér hvort það komi þessum eða þessum að gagni í kosningum, enda það eina sem virðist ráða för á þeim bænum núna.

Nú er ég aðeins búinn að nefna Sjálfstæðisflokkinn eða nýhaldið og nýja eða gamla Framsóknarflokkinn eftir því hvernig á það er litið og þá er eðlilegt að halda áfram þessari pólitísku greiningu á þessu máli. Ég vil nefna aðeins ræðu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur áðan. Það var ágætisræða á margan hátt og hv. þingmaður fór í málið á málefnalegri hátt en margir aðrir stuðningsmenn þess og hv. þingmaður er mikill stuðningsmaður þessa máls. Ég vil bæta því við að hv. þingmaður reyndi að líta svolítið á heildarmyndina, en datt svo í að rökstyðja málið með fullyrðingum á borð við þá að það væri, með leyfi hæstv. forseta, „almennur meiri hluti fyrir því að við tökum utan um þennan málaflokk af mannúð, meiri mannúð“. Það eru sem sagt rökin fyrir því að það eigi að styðja þetta mál, að það sé almennur vilji fyrir því að við tökum utan um þennan málaflokk af mannúð og meiri mannúð. Þetta fannst mér svolítið lýsandi fyrir umræðuna, einhverjum svona orðum er flaggað eins og mannúð. En er það mannúð að vera með kerfi sem í raun er til þess fallið að hvetja fólk til að fara í hættuför, oft á vegum stórhættulegra glæpasamtaka sem geta tekið aleiguna af fólki, til að stefna því í stórkostlega hættu, í stað þess að búa til fyrirkomulag sem hvetur fólk til að nýta hinar lögformlegu leiðir, hinar öruggu leiðir, í gegnum t.d. samstarf við Sameinuðu þjóðirnar og kvótaflóttamannakerfið? Það er það sem dönsk stjórnvöld eru að gera og danskir jafnaðarmenn hafa boðað og reyndar kallað mannúðarstefnu, ekki hvað síst af þeim sökum sem ég var að lýsa. Það er miklu frekar réttnefni í tilviki dönsku jafnaðarmannanna að um mannúð sé að ræða því að það gengur út á að verja þeirra samfélag en ekki síður að koma í veg fyrir að glæpahópar nýti Danmörku til að stefna fólki í stórkostlega hættu og taka af því aleiguna. Það er mannúð. Það að ná sem mestri mannúð getur stundum verið flókið en ef menn leyfa sér að hugsa hlutina rökrétt þá er hægt að hámarka þá aðstoð sem við getum veitt þeim sem þurfa mest á aðstoðinni að halda.

Herra forseti. Af því að ég datt í þessa pólitísku greiningu á þessu máli hef ég ekki náð að halda áfram með þráðinn sem ég var kominn af stað með og gæti því þurft að ræða málið aðeins áfram. En ég ítreka það varðandi framhald þessarar umræðu, umræðu um svona stórt mál og mikilvægt sem varðar líf og heilsu fólks og framtíð samfélaga, að hún verður að fá að byggjast á staðreyndum, rökræðu og jafnvel örlítilli skynsemishyggju.