151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:20]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það vekur sérstaka eftirtekt hversu margir hlutfallslega sækja um vernd hér á landi samanborið við nágrannaríki okkar. Það er eftirtektarvert að fylgdarlaus börn eru ekki mörg en að mestu leyti er um að ræða stálpaða drengi. Það skal ósagt hvort hægt sé að vefengja aldur drengjanna en þó verður að treysta því að þær aðferðir sem notaðar eru við aldursgreiningar standist viðurkenndar vísindalegar aðferðir, samanber umsögn landlæknis.

Börn eru vissulega viðkvæmur hópur og ber að vanda til verka þegar málefni þeirra eru til meðferðar. Flest þeirra koma þó með foreldrum eða forsjáraðilum. Þau njóta umönnunar foreldra sinna og virðist Útlendingastofnun tryggja hag þeirra eftir bestu getu. Það veldur nokkrum áhyggjum hversu langan tíma afgreiðsla umsókna tekur. Það má með rökum segja að bið eftir niðurstöðu, samþykki eða synjun um dvalarleyfi, reynist börnum sérstaklega erfið. Það skiptir því höfuðmáli að efnismeðferð taki sem stystan tíma og að regluverk sé gert það skýrt að enginn vafi leiki á hver réttur hælisleitenda sé. Úrskurðir þurfa að vera skýrir og framkvæmd úrskurða þarf að framfylgja sem fyrst eftir niðurstöðu.

Það veldur áhyggjum hve langan tíma getur tekið að afla upplýsinga um þá hælisleitendur sem koma hingað skilríkjalausir. Það er nauðsynlegt að gera þá sem flytja farþega hingað til landsins ábyrga og tryggja afrit af skilríkjum svo að hægt sé að kalla eftir þeim. Mætti gjarnan setja ákvæði í lög um að þeim sem koma hingað skilríkjalausir sé vísað til baka eftir viðtal á landamærum þar sem hægt væri að greina á stuttum tíma hvort taka ætti mál viðkomandi til efnislegrar meðferðar. Á landamærum ætti að vera hægt að greina hvort um mansal sé að ræða en í slíkum málum þarf að viðhafa aðgát.

Upplýsingar eru af hinu góða og um það deilir enginn. Nefndinni er greinilega ekki ætlað að hafa forystu í málum er lúta að málum hælisleitenda en það er sennilega aldrei meiri þörf fyrir slíkt en um þessar mundir. Þessi málaflokkur kostar þjóðina allt of mikið og það er jafnframt öruggt að fé skattborgara má nýta mun betur. Af hverju er svona mikil ásókn hingað til lands? Af hverju tekur svona langan tíma að afgreiða umsóknir? Okkur ber að fara vel með almannafé, en er það gert? Með því að stytta afgreiðslutímann mætti eflaust koma betur til móts við kvótaflóttamenn. Þar erum við sannarlega skuldbundin, þ.e. við kvótaflóttamenn. Af hverju er ekki horft á reynslu Norðmanna, Dana og fleiri þjóða?

Hér kemur dæmi frá Spáni. Á Spáni hafa undanfarið verið í gangi stórkostlegar rassíur í að stemma stigu við ólöglegum innflytjendum og glæpaklíkum sem nýta sér flóttamannavandann. Lögreglan á Kanaríeyjum hefur undanfarið staðið í einhverjum stærstu aðgerðum sem hún hefur ráðist í í áraraðir en hún hefur hingað til handtekið ríflega 50 manns og gert mikla fjármuni, vopn og ólögleg vegabréf upptæk. Þetta er hluti af leynilegri lögregluaðgerð sem er sannkallað þjóðarátak gegn mansali og óleyfilegum búferlaflutningum sem virðist vera stór iðnaður á þessu svæði. Allt tengist það komu báta sem ferðast frá vesturströnd Afríku til Kanaríeyja. Í stórri aðgerð fyrir skömmu birtust þungvopnaðir lögreglumenn í skotheldum vestum með sjálfvirk vopn og nutu aðstoðar Europol. Þetta var allt hluti af samræmdum áhlaupum víða suður af Gran Canaria, einkum í sveitarfélaginu Mogán og einnig á eyjunni Tenerífe. Margir hinna handteknu voru útlendingar sem höfðu búið þar nógu lengi til þess að hafa þegar fengið spánskt ríkisfang en þeir eru blandaðir að uppruna. Á meðal hinna handteknu eru Ítalir og Marokkómenn en þarna virðast skipulagðir glæpahringir hafa starfað. Aðgerðum hefur verið haldið áfram og fleiri árásir og handtökur eru ekki útilokaðar. Lögreglan sakar þá sem eru í haldi um að hafa framið margvíslega glæpi sem tengjast ólöglegu mansali, skipulagningu, samskiptum og ferðalögum á opnum bátum, þekktum sem „pateras“ og „cayucos“, frá ýmsum stöðum við strendur Vestur-Afríku, allt til þess að flytja fólk ólöglega til eyjanna sem er svo stökkpallur til Spánar og Evrópu. Þetta er ekki fyrsta aðgerðin af þessu tagi sem lögreglan framkvæmir. Á síðasta ári hófust aðgerðir gegn nokkrum ólöglegum samtökum sem tengjast mansali með tengsl og staðsetningu í Lanzarote en þau eru talin bera ábyrgð á komu þúsunda ólöglegra innflytjenda til Kanaríeyja. Það sem af er þessu ári til loka mars hafa samtals 6.122 ólöglegir innflytjendur farið til Spánar sjóleiðina. 3.436 þeirra komust að ströndum Kanaríeyja. Það eru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra samkvæmt skýrslu sem innanríkisráðuneytið birti.

Hæstv. forseti. Þetta eru ískaldar staðreyndir og upplýsingar. Af hverju er ég að nefna þetta í ræðu um það mál sem er til umræðu? Jú, þetta kom upp og ég ákvað að flytja þessa ræðu vegna þess að spurning kom upp um afleiðingar þess frumvarps sem hér er til umræðu, eftir að það verður að lögum, hvaða afleiðingar það hefur og hvað þetta muni kosta og hvernig við ætlum að halda utan um þá staðreynd að umsóknum hælisleitenda er alltaf að fjölga. Það hefur verið talað um opinn krana og meira að segja að það þurfi að fjölga krönum. Við höfum áhyggjur af því að við séum að stíga skref í þá átt að við missum tökin á því hvernig við ætlum að höndla þessi mál. Þess vegna erum við að vekja máls á þessu. Það er því ekki að ófyrirsynju sem við flytjum þessar ræður hér í dag.