151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið, ég var að fjalla um hvað við getum lært af nágrannaþjóðum okkar, Norðurlöndunum sérstaklega, í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Ég fjallaði sérstaklega um Svíþjóð í því tilliti. Ég ætla að halda þeirri umfjöllun aðeins áfram vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að við horfum til þeirra þjóða sem hafa mikla reynslu af þessum málaflokki, móttöku hælisleitenda og flóttafólks. Svíþjóð er sér á báti í þessum efnum og þar hefur orðið stefnubreyting sem er mjög athyglisverð. Að sama skapi er orðin breyting í þessum málaflokki í Danmörku, eins og hefur verið rakið nokkuð ítarlega hér í dag í ræðum og svo höfum við Miðflokksmenn gert það í greinaskrifum einnig, sérstaklega hv. þm. Ólafur Ísleifsson sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á stefnumálum Norðurlandanna í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.

Ég ætla að halda áfram með umfjöllun um Svíþjóð. Á tímabilinu 2015–2017 tók Svíþjóð til afgreiðslu rúmlega 218.000 umsóknir hælisleitenda. Flestar þeirra komu frá Sýrlandi, Afganistan og Írak. Á sama tíma höfnuðu hins vegar ýmis auðug arabaríki fyrir botni Miðjarðarhafs því að taka á móti flóttamönnum frá nágrannalandi sínu Sýrlandi. Það er mjög athyglisvert, herra forseti. Þau lönd sem eru næst þessu flóttafólki, t.d. frá Sýrlandi, þegar kemur að menningu, siðum, tungumáli og öðru slíku, þar sem aðlögun ætti að vera hvað auðveldust fyrir þetta blessaða fólk sem hefur þurft að flýja stríðsátök, höfnuðu því að taka á móti því, arabalönd fyrir botni Miðjarðarhafs sem hafa svo sannarlega allt til að bera til að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi, fjárhagslega burði og sömu menningu og siði og fólkið býr við í Sýrlandi.

Samkvæmt nýjum tölum frá Sameinuðu þjóðunum fyrir árið 2019 eru sænskir ríkisborgarar af erlendu bergi brotnir orðnir 20% í Svíþjóð og nálægt 10% Svía eru múslimar. Samkvæmt nýlegri spá Pew-rannsóknarmiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum gæti sú tala náð 35%, þ.e. að múslimar í Svíþjóð geti orðið um 35% um miðja þessa öld ef núverandi þróun helst óbreytt. Meira en 30% af öllum fæðingum í Svíþjóð eru hjá mæðrum fæddum utan landsteinanna. Áhrifa þessara miklu breytinga á samsetningu þjóðarinnar er þegar farið að gæta á vettvangi stjórnmálanna í Svíþjóð. Á tímabilinu frá byrjun þriðja áratugarins fram á seinni hluta áttunda áratugar síðustu aldar réðu sósíaldemókratar nánast öllum lénum í Svíþjóð. Landið hafði einungis þrjá forsætisráðherra á þessu tímabili sem nutu mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Nú hafa hins vegar orðið mikil umskipti í sænskum stjórnmálum því að í byrjun þessa árs mældust Svíþjóðardemókratarnir með meira fylgi en nokkur annar stjórnmálaflokkur í landinu. Þessi pólitísku umskipti eru sérstaklega tengd vaxandi áhyggjum almennings af þeim áhrifum sem svo mikill fjöldi fólks af erlendu bergi brotinn er þegar farinn að hafa á menningu landsins, auk hins háa kostnaðar sem aðlögun flóttamanna að sænsku þjóðfélagi hefur haft í för með sér, og ekki síst áhyggjum af því hvað þessi þróun kunni að þýða fyrir langtímasjálfbærni velferðarkerfisins. Í Svíþjóð er t.d. of lítill hvati fyrir flóttamenn að sækjast eftir vinnu, sérstaklega fyrir barnafjölskyldur þar sem það lækkar verulega bætur frá velferðarkerfinu. Stór hluti flóttamanna hefur einnig í mörgum tilfellum þjappað sér saman í blokkarhverfum sem reist voru á sjötta áratugnum í útjaðri ýmissa borga. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Tíminn er liðinn. Ég náði ekki að klára þetta þannig að ég bið forseta vinsamlega að setja mig aftur á mælendaskrá.