151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það hefur aðeins komið til umræðu hér að hælisleitendakerfið sé misnotað, sem það er vissulega, hér og auðvitað víða annars staðar, enda ekki hægt að gera ráð fyrir því að glæpagengi sem taka aleiguna af fólki og setja það í lífshættu muni í öllum tilvikum vilja fylgja settum reglum. En í ljósi þessarar umræðu vil ég byrja á því að draga það fram að misnotkun kerfisins, og ef kerfið er þannig uppbyggt að það auðveldi misnotkun, bitnar auðvitað fyrst og fremst á þeim sem þurfa raunverulega á hjálp að halda og sérstaklega þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Þess vegna þurfum við, við hönnun móttökukerfis og mat á því hvernig við höldum á þessum málum, að setja í forgang að það sé til þess fallið að aðstoða sem mest þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Það er stefnan núna víða á Norðurlöndunum, eiginlega á öllum Norðurlöndum nema á Íslandi miðað við þetta frumvarp, að ráðast í endurskoðun þessa fyrirkomulags með þetta að markmiði. Hér er hins vegar verið að leggja til að Ísland fari í þveröfuga átt miðað við önnur Norðurlönd. Með þessu frumvarpi er íslenska ríkisstjórnin og aðrir stuðningsmenn frumvarpsins í raun að gera sig að nokkurs konar jaðarhópi í þessum málaflokki því að í Danmörku er núna samstaða frá hægri til sósíaldemókrata og raunar lengra til vinstri, enda eru sósíaldemókratar með samstarfsmenn sem eru enn lengra til vinstri. Þar er samstaða á þessu breiða bili um að breytinga sé þörf. Þær breytingar ganga þvert á það sem lagt er til hérna. Og nýjustu tíðindi frá Svíþjóð eru að þar sé nú komin tímamótasamstaða frá miðju a.m.k. og til hægri um endurskoðun á fyrirkomulagi sem hefur reynst illa. Markmiðið er að þessi lönd verði betur í stakk búin til að aðstoða þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Með þessu frumvarpi er íslenska ríkisstjórnin, þar með talið Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, að stilla sér upp með flokkunum sem eru lengst til vinstri í nýja vinstrinu á Norðurlöndum, jaðarvinstri getum við kallað það.

En þá að þessari stefnubreytingu og ég ætla að byrja á Danmörku. Nú legg ég áherslu á það að lykilatriði í þeirri stefnu sem ég ætla að fara yfir hér, ég ætla að byrja á stefnu danskra jafnaðarmanna, er að fara þveröfuga leið við það sem hér er lagt til af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé við hæfi að byrja einfaldlega á því að lesa inngangsorðin úr stefnu danskra jafnaðarmanna í þessum málaflokki til þess að útskýra hversu mikill munur er á stefnu danskra jafnaðarmanna sem byggist á áratugareynslu og umræðu í þeim flokki og dönskum stjórnmálum og samfélagi og svo stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar nú. Þetta er stefna sem er til komin eftir gríðarlega mikla vinnu sem byggir á reynslu og staðreyndum.

Nú sé ég, herra forseti, að tími minn í þessari ræðu er á þrotum en í næstu ræðu mun ég halda áfram og víkja þá sérstaklega að innihaldi stefnu danskra jafnaðarmanna.