151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[20:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að við þyrftum að gæta að því að taka sómasamlega á móti þeim hópi hælisleitenda eða þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd sem við réðum við og veita þeim sæmilega þjónustu. Og af því að sporin hræða, herra forseti, þá er eitt sem veldur áhyggjum varðandi það frumvarp sem við ræðum hér, menn gera sér náttúrlega enga grein fyrir því hvað það muni hafa í för með sér, hvorki hvað varðar fjölda eða fjölgun né meiri fjárútlát. Það sem mig langaði að draga fram, herra forseti, er að þau sveitarfélög íslensk sem hafa borið hitann og þungann af móttöku hælisleitenda hingað til lands hafa borið sig illa undan því álagi sem þetta veldur, bæði á grunnstoðir samfélagsins og allt eftirlit og annað sem þarf að viðhafa þegar búið er að hrúga fólki saman á einn stað við aðstæður sem gætu verið betri. Það er einmitt liðurinn í því sem áður var rætt að til þess að taka sæmilega eða svo sómi sé að á móti hælisleitendum eða fólki sem er að leita að alþjóðlegri vernd þarf náttúrlega að vera til staðar aðstaða til þess að hægt sé að sinna því með þeim hætti sem ber. Það er því í mörg horn að líta, herra forseti — nú sé ég að í salinn gengur hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og ég fagna því mjög. Við þurfum að gæta að því, eins og ég sagði áðan, að taka á móti þeim fjölda sem við ráðum við að þjónusta með þeim hætti sem sómi er að. Það er engin fyrirhyggja í þessu frumvarpi, herra forseti, og því miður lítur það þannig út að menn hafi ekki gert nokkra tilraun til að reyna að skyggnast inn í framtíðina varðandi það hvaða fjölgun þetta frumvarp gæti haft í för með sér.

Það er kannski rétt að stinga því hér inn að í fyrra, meðan flug var í lágmarki til og frá landinu, sérstaklega í fyrstu bylgju Covid, kom í ljós að komur hælisleitenda eða fólks í leit að skjóli drógust saman um 15%, ef ég man rétt, frá því árinu á undan, á meðan almennum flugfarþegum fækkaði um 85%. Þetta segir, svo undarlegt sem það nú er, að uppistaðan í farþegum í fyrra, árið 2020 þegar minnst flug var, hefur verið hælisleitendur eða fólk í leit að alþjóðlegri vernd og auðkýfingar. Þeir hafa borið uppi fjölda þeirra sem komu til Íslands í fyrra, svo undarlegt og önugt sem það nú er. Það er náttúrlega vegna þess, eins og hér hefur komið fram áður, að þeim sem eru að sjá um, það er nú kurteislegt orð, ferðalög þessa fólks, annaðhvort með því að smygla því eða beita það mansali eða hvernig það nú er, er náttúrlega alveg sama þó að ástandið bæði í fluginu og á brottfarar- og áfangastað sé ekki með bestum hætti heilsufarslega séð. Auðvitað er þetta kannski sá hluti farþega sem seinast dregst saman vegna þess að þeim sem skipuleggja ferðalagið er algerlega sama um það hvort menn komast heilir á áfangastað eður ei.

Herra forseti. Þegar við erum að reyna að skyggnast inn í framtíðina og sjá hvaða áhrif þetta frumvarp eða samþykkt þess hefur á okkur, efnahagslega sérstaklega, þá megum við ekki gleyma þætti sveitarfélaganna í þessu máli því að þau bera hitann og þungann af því að ala önn fyrir þessum hópi þrátt fyrir að ríkið standi í sjálfu sér ábyrgt fyrir kostnaði.

Það er umhugsunarvert, herra forseti, að ég átti fyrir nokkrum vikum eða mánuðum viðræður við fulltrúa Útlendingastofnunar. Þá skildist mér að í fyrra færi fram það sem er kallað fyrsta viðtal, þ.e. fyrsta viðtal sem hælisleitandi fær þegar hann kemur til Íslands, að sex vikum liðnum, herra forseti. Í sex vikur bíður viðkomandi eftir því að hitta fulltrúa yfirvalda í svona alvöruviðræður. Þetta eru sex vikur. Allan þann tíma þarf að ala önn fyrir viðkomandi, sjá til þess að hann hafi húsaskjól og eitthvað að bíta og brenna. Það var hins vegar að heyra á því ágæta fólki sem vinnur hjá Útlendingastofnun að þessi tími, þessi tímalengd, biðtíminn, hefði styst verulega því hann hefði numið mánuðum næstu ár þar á undan. Þess vegna er ég að tala um það, herra forseti, að við getum ekki tekið á móti fleirum heldur en svo að við getum sinnt þeim með almennilegum hætti. Það er ekki sæmilegt að láta fólk bíða vikum og mánuðum saman eftir fyrsta viðtali. Það er gjörsamlega óþolandi og það er mannvonska, eins og fram hefur komið hér áður, að fólk, sérstaklega fjölskyldur, skuli dveljast hér á Íslandi misserum saman, jafnvel árum, endandi með því að það eigi að senda menn, konur og börn úr landi eftir að allir viðkomandi hafa skotið hér einhverjum rótum. Þá á að rífa þau upp aftur og senda úr landi. Þess vegna höfum við lagt áherslu á, og nú ætla ég enn einu sinni að undirstrika það, að mál hvers og eins sé afgreitt jafn fljótt og verða má. Það er öllum í hag. Það er náttúrlega ríkissjóði í hag að aðilar séu ekki hér í uppihaldi mjög lengi og að sjálfsögðu fyrir þá sem í hlut eiga, sem hingað leita, sem hingað sækja, að þeir séu ekki látnir bíða hér allan þennan tíma í óvissu yfir örlögum sínum.

Nú segi ég aftur, herra forseti, að þessar sex vikur eru bara biðin eftir fyrsta viðtali og þá tekur ákvarðanatakan við. Eins og kom t.d. fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni áðan í hans ágætu ræðu, sem ég ætla að hrósa mjög, þá er þessi biðtími og þessi tími sem líður náttúrlega algjörlega óviðunandi. Það er vegna þess að kerfið er, eins og hann réttilega benti á, seint í svifum og það er ekki snart að snúa sér við, eins og maður segir. Þess vegna þurfum við að gera allt sem við getum til að auka þennan málshraða sem yrði bæði þeim sem hingað leita og okkur öllum í hag.

Maður sér ekki í sjálfu sér að það sé nein grein gerð fyrir þessu í fyrirliggjandi frumvarpi, þ.e. að menn ætli að það þurfi fé, aukið fé, til þess einmitt að geta staðið við þetta, staðið undir því sem við höfum verið hér að hamast á varðandi málshraðann og mannúðina. Auðvitað eigum við að taka vel á móti þeim sem hingað rata sem við ætlum að taka á móti og tökum á móti. Við eigum ekki að gera það með hangandi hendi, við eigum ekki gera það með hálfum huga. Við eigum að gera það þannig að nokkur sómi sé að. Þess vegna þurfum við að aðgæta það að þeir sem hingað rata og við tökum á móti og ætlum að taka á móti séu ekki fleiri en svo að við getum leyst þetta verkefni með sómasamlegum hætti.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er þrotinn, því miður, og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.