151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með nokkrar hugleiðingar um það hvaða vandamál ég tel fólk vera að reyna að leysa þegar það talar um þessi mál af þeirri dýpt sem við höfum séð hér í dag og í gær, sér í lagi af hálfu hv. þingmanna Miðflokksins. Talað er um fjármálin, það séu mikil útgjöld úr ríkissjóði í þessum málaflokki, 3,9 milljarðar ef ég skil fjárlögin rétt, segjum bara 4 milljarðar. Svo hef ég heyrt töluna 4,5 milljarða, það er á því bili alla vega. Síðan er það mögulega fjöldinn af fólki, að þetta valdi á einhvern hátt offjölgun. Ég trúi því ekki að 361 manneskja, líkt og kom hingað í fyrra í gegnum hælisleitendakerfið, sé of mikið, sér í lagi ekki með hliðsjón af því að 4.500 börn fæddust hér á sama tímabili.

En auðvitað eru líka í bakgrunninum, þótt það sé kannski ekki sagt berum orðum, áhyggjur af menningarágreiningi og því að trúarbrögð eða menning hafi einhvers konar sundrungaráhrif eða gangi í berhögg við frjálslynd lýðræðisgildi. Ég óttast þá umræðu nákvæmlega ekki neitt, virðulegi forseti. Ég óttast það heldur ekki neitt að gagnrýna hluti sem ég tel andstæða frjálslyndum lýðræðisgildum. Þar hafa trúarkreddur mjög mikinn sess sögulega séð og hafa haft mjög mikil áhrif til að sporna gegn frjálslyndum lýðræðisgildum. Einfalt dæmi: Réttindi kvenna eru í beinni mótsögn við suma hluti í Nýja testamentinu, ekki bara Gamla testamentinu heldur líka Nýja testamentinu. Andstaðan við réttindi samkynhneigðra og sér í lagi hjónabönd samkynhneigðra byggðist að mestu lengi vel á beinlínis trúarlegum grundvelli, höfum það alveg á hreinu. Ég veit að það er ekki í tísku hérna að tala trúarbrögðin niður eins og sagt er, en þetta er bara svona. Svona var þetta í abrahamískum trúarbrögðum eins og kristni, og íslam er engin undantekning. Þau hafa staðið gegn þróun í átt að frjálslyndum lýðræðisgildum, hérlendis sem annars staðar. Við erum orðin þokkalega frjálslynd og þokkalega lýðræðisleg þrátt fyrir kristna arfleifð, ekki vegna hennar, höfum það líka alveg á hreinu. Við skulum ekkert tipla á tánum í kringum það. Svona er þetta bara. Þetta er bara saga okkar. Hún er ekkert endilega falleg eða þægileg. Þetta er erfitt, þannig er það bara.

Það er ekkert vandamál fyrir mig að taka sömu umræðuna þegar kemur að íslam eða þeim áhrifum sem íslömsk trúarbrögð og ýmsar túlkanir á þeim, sem eru fjölmargar, geta haft á viðhorf fólks til frjálslyndis og lýðræðisgilda, það er ekki vandamál. Almennt er ég þeirrar skoðunar að þegar trúmálum er blandað við stjórnmál sé útkoman verri en ella, langoftast í það minnsta. Ég þekki reyndar ekki dæmi um annað ef út í það er farið. Við verðum samt alltaf að gera greinarmun á fólkinu sem aðhyllist trúarbrögðin og trúarbrögðunum sjálfum. Ég get alveg vitnað í biblíuvers mjög nákvæmlega og sýnt fram á hvernig þau eru andstæð kvenréttindum, réttindum samkynhneigðra og jafnræði fyrir lögum almennt, lýðræðinu sjálfu reyndar. Í Rómverjabréfi, 13. kafla, versum 1–4, flæðir ekki beinlínis lýðræðisástin úr munni guðs, ekki beinlínis, reyndar hitt þó heldur. Samt búum við í lýðræðisríki þrátt fyrir að hér sé meiri hlutinn kristinn, þrátt fyrir að hér sé ríkiskirkja og vel fjármögnuð, meira fjármögnuð en þessi málaflokkur, meðan ég man. Ég gæti farið út í kennisetningar kaþólsku kirkjunnar, sem mér þykja margar hverjar mannfjandsamlegar og ógeðslegar, skal ég bara segja upphátt. Samt eru kaþólikkar á Íslandi, í valdastöðum jafnvel, sem beita sér t.d. ekki gegn réttindum samkynhneigðra.

Það er alveg eins með múslima, virðulegur forseti. Fólk er ekki trúarbrögðin sem það aðhyllist. Nú getur einhverjum fundist það skrýtið að einhver segist aðhyllast trúarkenningu eða heilaga bók sem segir eitthvað sem ekki sér merki í hugmyndafræði eða hegðun viðkomandi einstaklings. Gott og vel, mér finnst það líka skrýtið, enda er ég ekki trúaður. En það er samt sem áður þannig, og við þurfum líka að viðurkenna það, að einstaklingar eru miklu meiri og merkilegri fyrirbæri en tilvitnanir í heilagar bækur. Það á við um kristið fólk, það á við um gyðinga, það á við um múslima, það á við um hindúa. Það á við um okkur öll. Við sem manneskjur, sem einstaklingar, erum einfaldlega flóknari fyrirbæri en svo.

Ég hygg og giska hér á að ástæðan fyrir því að svo margt fólk í samfélaginu óttast einhvern veginn of marga múslima á Íslandi, eða of mikið af einhverjum framandi trúarbrögðum eða þess háttar, sé að fólk geri ráð fyrir því að trúað fólk skipti aldrei um skoðun eða geti illa sannfærst um ágæti frjálslyndra lýðræðisgilda. Ég þekki það af mjög mikilli persónulegri reynslu af því að ræða við heittrúaða múslima og heittrúaða kristna um frjálslynd lýðræðisgildi að það getur verið svolítið snúið. Rökræður um slíkt eru flóknar, þær eru oft tilfinningaþrungnar og taka tíma og þegar maður ræðir við einhvern um trúmál eða t.d. réttindi samkynhneigðra í samhengi við trúarkennisetningar er alveg viðbúið að fólk skipti ekki um skoðun á staðnum. Það þarf að hugsa um það þegar það fer að sofa, þegar það vaknar, þegar það fer í sturtu og er að elda matinn og hvað eina og láta það aðeins veltast um í huga sér áður en það fer að skipta um grundvallarheimsmynd eða það sem á að heita grundvallarheimsmynd. Það leiðir mig líka að öðru sem er hlutverk trúarbragða í lífi fólks. Það er mjög misjafnt, eins og við ættum að þekkja hér á Íslandi þar sem meiri hlutinn segist kristinn. Hversu margir Íslendingar lesa raunverulega Biblíuna eða mæta í kirkju á sunnudegi? Ekki það margir að mínu viti, virðulegi forseti, mættu vera fleiri, ég er mjög hlynntur því að fólk fræðist aðeins um kristnina, þótt ekki væri nema til að læra að efast aðeins meira, en það er svo sem önnur saga.

Trúarbrögð eru nefnilega líka menningarlegt fyrirbæri. Fólk segist vera kristið vegna þess að það aðhyllist einhverja almenna nálgun á siðfræði sem á sér ekki endilega mikla trúarbragðafræðilega stoð, er ekki endilega grundvölluð á tilteknum versum í Biblíunni eða Kóraninum en einkennir menninguna. Tökum fyrirgefninguna sem dæmi, sem mér finnst því miður vera á undanhaldi á Íslandi. Það eru ástæður fyrir því og alveg efni fyrir nýja ræðu einhvern tímann. Þótt fyrirgefning sé eitthvað sem er eflaust til í langflestum samfélögum, eflaust öllum í einhverri mynd í það minnsta, sem og áhersla á fyrirgefningu og hvers vegna það er praktískt og gott að hafa hana í menningunni, þá er það almennt sjónarmið að fólk telur fyrirgefninguna, kærleikann, leitina að sannleikanum og þessi djúpstæðu gildi almennt koma úr þeim trúarbrögðum sem það elst upp í, alveg sama hvaða trúarbrögð það eru. Múslimar telja þessi gildi koma úr íslam, kristnir telja þau koma úr kristni og gyðingar telja þau koma frá gyðingdómi. Raunin er sú að þetta eru sammannleg gildi sem við höfum öll. Ef við finnum afsökun fyrir því að halda í þessi gildi í trúarbrögðum okkar þá erum við almennt til í að aðhyllast þau trúarbrögð. Það þýðir ekki að við séum til í að fara alla leið í þriðju Mósebók eða annan kafla í Kóraninum til þess að finna upp refsilöggjöf og setja almenn hegningarlög, þetta er ekki það sama, alla vega ekki hérlendis, en það er það reyndar í Sádi-Arabíu, en ég ætla að spara pistilinn um hana.

Ég er alveg til í umræðu um hlutverk trúarbragða og menningaráhrif á frjálslynd lýðræðisgildi. Mér finnst allt í lagi að opna þá umræðu, ég er ekkert smeykur við hana, en ég tek eftir því að annað fólk er svolítið smeykt við hana, það er hrætt við að vera kallað rasistar eða eitthvað því um líkt. Þá vil ég benda því ágæta fólki á eitt: Fordómar eru auðveldir. Þeir eru okkur eðlislægir. Við getum í raun og veru lítið gert að því að upplifa fordómafullar tilfinningar, það er bara hluti af því hvernig hugur okkar virkar. Fyrir því eru þróunarlegar ástæður sem ég fór yfir í ræðu nýlega um lögreglulög. Það er auðvelt að misstíga sig og fylla um of í eyðurnar, gefa sér að fólki gangi eitt til eða trúi öðru. Jafnvel þegar fólk segist trúa einhverju þá þýðir það oft eitthvað allt annað en það sem áheyrandinn heyrir. Það er viðbúinn hluti af umræðu um trúarbrögð, menningaráhrif og gildi. Þá umræðu þurfum við að taka við hvert annað, hér í þessum sal, úti í samfélaginu og einnig við fólk sem flytur hingað til lands úr menningarheimum sem eru frábrugðnir okkar heimi. Við eigum að vera óhrædd við það og við eigum að standa mynduglega að því. Sú umræða er engin mótsögn við að bjóða fólk velkomið. Þá erum við alla vega að halda athygli okkar við það sem við erum raunverulega að tala um.