151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því sem ég veit um aðferðirnar sem beitt er í Danmörku þá þykir mér þær harkalegar, mér þykir þær hranalegar. Mér finnst vanta áhersluna á það hvað hefði mátt fara betur í upphafi. Það er spurning sem hv. þingmenn Miðflokksins eru mikið fyrir að spyrja, en þeir svara henni ekki á sama hátt og ég til dæmis. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að fólk sem kemur hingað, hælisleitendur eða kvótaflóttamenn, hafi fullt færi á því að aðlagast íslensku samfélagi og að það sé aðstoðað við það. Þess vegna er ég hlynntur frumvarpinu sem við ræðum núna. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna hv. þingmenn eru á móti því. Rökin sem menn hafa fært fram, sem ég hef heyrt núna milljón sinnum, standast ekki mína skoðun, ég er ósammála hv. þingmönnum um áhrif frumvarpsins.

Spurningin sem við ættum að spyrja okkur er: Hvernig eflum við frjálslynd lýðræðisgildi almennt? Hvernig kennum við börnunum okkar þau sem best? (Forseti hringir.) Hvernig pössum við að þau endurspeglist sem best í samfélaginu okkar, í löggjöfinni og vissulega þegar kemur að fólki sem kemur hingað utan frá? (Forseti hringir.) Útlendingar eru bara engin undantekning þar á. Almennt finnst mér að gefa þurfi í í fræðslu um frjálslynd lýðræðisgildi og þá þarf ekkert að taka útlendinga sérstaklega fyrir.