151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt það áður, ég ætla að segja það aftur: Ég dáist að því hvað hv. þingmaður talar af miklum trúarhita miðað við það að eftir því sem ég best veit er hann trúlaus maður. Það er hins vegar eftirtektarvert og mig langaði bara til að stinga því hér að að ég minnist þess ekki í þessari umræðu að hafa yfirleitt heyrt minnst á trúarbrögð nema hjá hv. þingmanni. Við höfum verið að tala um að hingað rati alls konar fólk. Reyndar sagði sá sem hér stendur áðan að það væri eftirtektarvert að mjög fáir kristnir hælisleitendur hefðu ratað hingað þó að þeir búi við drjúgar ofsóknir. Mig langar eiginlega til að spyrja hv. þingmann hvaða erindi þessi trúarhiti eigi inn í þessa umræðu þar sem trúmál hafa ekkert verið til umræðu hér, ekki miðað við það sem ég hef heyrt og hef ég fylgst nokkuð vel með í dag. Við erum einfaldlega að tala um viðfangsefnið. Við erum að tala um að taka sómasamlega á móti fólki sem hefur það skítt og við viljum gera það með sæmilegum hætti þannig að við höfum nokkurn sóma af.