151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera að hv. þingmaður hafi stungið á kýli en það kemur bara ekkert út úr því kýli. Ég benti hér á áðan að fyrir 20 árum hefði verið bent á að við réðum ekki við að mennta börn nýbúa sem þá voru að koma til Íslands og þau hafa aldeilis ekki átt auðvelda ævi. Komið hefur í ljós á þessum 20 árum að þær varúðarraddir sem þar hljómuðu voru sannar. Það er enginn ótti í því. Eins og ég hef sagt hér áður margoft er Miðflokksfólk ekkert hrætt við útlendinga. Við erum sum að tala við útlendinga á hverjum degi og sleppum bara nokkuð vel frá því. Hv. þingmaður er að búa til einhverja mynd sem stenst ekki. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki — af því að hann segir að það sé aldrei of mikið af fólki sem kemur o.s.frv.— að við berum skyldu til þess að þeir sem hingað rata fái almennilegar móttökur, að börn þeirra fái tækifæri til að fóta sig í þjóðfélaginu og að fjöldinn megi ekki verða meiri en svo að við ráðum við það hlutverk að sinna þessu fólki almennilega?