151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar Samherji var gagnrýndur á sínum tíma þá var það kallað árás á starfsfólk Samherja. Það er gamalt trikk að beina gagnrýninni eitthvert annað. Ég gagnrýni pólsk stjórnvöld og já, kaþólsku kirkjuna, þegar pólsk stjórnvöld eða stjórnvöld af hvaða tagi sem er, kirkja eða félag eða einstaklingar eða hvaðeina, vinna markvisst og meðvitað gegn frjálslyndum lýðræðisgildum. Það hafa yfirvöld í Póllandi gert og við eigum að mótmæla því og við höfum lagt til að því verði mótmælt. Kaþólska kirkjan hefur í gegnum tíðina haft mjög neikvæð áhrif á t.d. réttindi kvenna og réttindi samkynhneigðra. Það er bara söguleg staðreynd, virðulegi forseti. Ég er á móti því. Hvað mér finnst um kirkjuna sem slíka kemur málinu ekkert við umfram það í stjórnmálalegu samhengi. En í stjórnmálalegu samhengi þá er það hlutverk okkar hér að vernda réttindi borgaranna og efla frjálslynd lýðræðisríki og það er engin stofnun svo heilög eða merkileg að hún fái að ganga á frjálslynd lýðræðisgildi (Forseti hringir.) án þess að fá gagnrýni frá þingmönnum Pírata um það, þannig að það sé alveg á hreinu.(Forseti hringir.) Það er enginn yfir þá gagnrýni hafinn.